Li|iana on Ice: júlí 2004

fimmtudagur, júlí 29, 2004 

28. júlí (28.7'04)

Jæja, ég skoðaði álagningarseðilinn minn í dag, hann var nú ósköp svipaður því sem ég bjóst við, ég fæ barnabætur núna 1. ágúst, en þar að auki fæ ég 18 krónur sem ég ofgreiddi í skatt á síðasta ári!!! HA? Finnst þeim þetta virkilega taka því?? En rétt skal vera rétt!

Ég er ekki búin að vera mjög dugleg að skrifa hérna inn, og þið verðið bara að díla við það. Kötturinn er kominn og farinn aftur, hún kom heim um miðja nótt á aðfaranótt mánudagsins en hoppaði aftur út í nótt. Andskotans vanviti!!
En ég ætla ekkert að fara á límingunum yfir því strax, auglýsingar og hystería báru engan árangur síðast, hún skilaði sér bara sjálf þegar henni hentaði og ég vona að hún geri það bara aftur núna. Það versta er að hún er svo persaleg í feldinum sínum að hann hleypur allur í ógeðslega hnúta þegar hún blotnar! Þannig að ég reikna nú með að ég verði hreinlega að fá fyrir hana róandi hjá dýra þegar hún kemur heim til að geta hreinlega bara tekið hana með bartskeranum!! Úfff...

Nú er svo mikið sem ein vika þangað til kallinn minn kemur heim aftur og þá verður nú kátt í höllinni! Sömuleiðis er móðir hans blessunin að velta því alvarlega fyrir sér að koma um leið og hann og þá verður sko enn kátara í höllinni!! Þessi kelling er einhver sú albesta tengdamamma sem ég hefði getað nælt mér í! Verst að hún skilur ekki íslensku og getur þess vegna ekki skilið hvað ég er að babla hérna en hún má alveg vita það, hún er frrrrábær! Ja, hører du det, Turid, du er heilt toppers! Gleder meg til å få besøk av deg om en ukes tid! Du må huske å kjøpe øl i tax-free'en!

Við Atli fórum að sjá Shrek 2 í gærkvöldi, þessi mynd er tærasta snilld! Mér finnst það alveg æðislegt þegar "barnamyndir" höfða rétt eins vel til foreldranna! Og það gerir þessi svo sannarlega. Ég held svei mér þá að ég hafi skemmt mér betur yfir henni en strákurinn!

Nú er LeiðAljós byrjað, ég held að ég ætli barasta að næla mér í smá kríu í sófanum yfir því.

Góðar stundir.

fimmtudagur, júlí 22, 2004 

Stutt stopp (22.7.'04)

Í dag er bara stutt stopp í netheimum fyrir mig, ég ætla að fara út með Jónínu og vinkonast í dag. Gaman gaman. Við ætlum líka að kíkja á Sæunni bollu og ég er að spá í að grýta í hana ***************inu sem ég keypti handa bollunni hennar um daginn. Svo það er eins gott fyrir þig, Sæunn, að vera með klárt á könnunni fyrir mig, annars færðu þetta ekki neitt!!
Það gengur bara vel að fylla dagana af skemmtilegheitum fyrir strákinn, hann virðist allavega sáttur! En ég held að ég þurfi að taka á þessu með svefnmálin, við erum að sofa til 11 á hverjum degi! Ekki gott!
Nú ætla ég að reyna að kreista líf í andlitið á mér áður en ég fer út, ekki gaman að mæta í heimsókn til ófrískrar konu lítandi út eins og gimp!

miðvikudagur, júlí 21, 2004 

Ýlda! (20.7.'04)

Þetta er nú meiri ýldudagurinn.
Ég vaknaði fyrir allar aldir eftir að hafa hangið við tölvuna langt fram yfir það sem getur kallast siðsamlegur háttatími - eina ferðina enn og var svo glimrandi ánægð með það að þrátt fyrir stuttan svefn þá var ég í þrusuformi!
Ég skondraðist á námskeiðið mitt og fræddist heilmikið fyrir hádegið og sótti svo guttalinginn minn til uppáhalds dökkhærða mágs míns yfir fimmtugu þar sem hann hafði verið í pössun frá því í gærkvöld til þess einmitt að ég gæti fræðst.

Nú gerðust merkilegir hlutir. Ég talaði við fjármálaráðherrann í gær og náði að mýkja hann upp með smá sms-kynlífi (ég er að tala um fjármálaráðherra heimilisins, unnusta minn, ekki Geir H. Haarde, nota bene) og fá aukafjárveitingu fyrir útsölufylleríi! Þetta fer inn á fjárlög næsta mánaðar, og þá kemur aukainntekt í ríkis(heimilis)sjóð í formi endurgreiðslu skatta, svo þetta splittar ekki diff!
Ég dömpaði þess vegna gríslingnum í Ævintýralandið og datt svo í það! -Eða ég ætlaði sko að detta í það, það bara tókst ekki! Ég sá alveg fullt af drasli sem mig langaði í en ég hætti alltaf við. "Þetta er samt of dýrt" og "Ég hef ekkert við þetta að gera" eru orðnar setningar sem eru orðnar svo fastofnar í undirmeðvitundina hjá mér eftir margra ára basl að ég get ekki sleppt mér þegar fjárveitingin gefst! Djöfull er ég lásí! (Smá niðurrif svona, varð að skjóta því inn.)

Mér tókst samt að kaupa fjóra hluti, þar á meðal æðislega sætt ****************** (ritskoðað vegna ákveðins lesanda) fyrir ófæddu STELPUNA hennar Sæunnar bollu og 9.000 króna skó fyrir sjálfa mig sem mér tókst af einstakri lagni að prútta mig niður í 3.000! Guttalingur fékk líka nýja flík og er núna úti að spóka sig í skopparapeysunni algerlega að springa úr monti! Enda er þetta ein fyrsta flíkin sem barnið klæðist sem er ekki "hand me down" frá einhverjum öðrum! Rosalega er maður nú góður!!!
Eftir þetta misheppnaða eyðslufyllerí var stráksi síðan sóttur í Ævintýralandið og brunað á bókasafnið til að verða okkur úti um dægradvöl fyrir fríið. Rosalega hlakka ég til að kúra mig upp í rúm í kvöld með bók!

Nema hvað, rosalega varð ég þreytt af öllum þessum átökum, ég skellti gutta í bókalestur þegar við komum heim og sofnaði sjálf slefandi á sófanum yfir LeiðAljósi og vaknaði ekki fyrr en Össur var farinn að rífast í Kastljósinu og gutti í eyrunum á mér, báðir að nöldra um mismunandi hungur, annan hungraði í réttláta ráðamenn og hinn í kvöldmat. Þá var ekki seinna vænna en að kúldrast á fætur, þess handviss að ég bý enn í réttlátum heimi þar sem kúkalabbar þurfa að éta ofan í sig stóru orðin og vonandi sitt hvað fleira! Verði ÞEIM að góðu!
Nú er kjúllinn minn að malla í ofninum, það verður sem sagt síðbúinn kvöldmatur hér á bæ, sem skiptir ekki máli því við erum hvort eð er í sumarfríi! Nanananananaaaa...

Og þetta er orðið allt of langt, ég er hætt!

laugardagur, júlí 17, 2004 

Helgarfíaskó (19.7.'04)

Jæja, ég fór heim í Willta Westrið um helgina að hitta æskuvinkonurnar tvær sem enn nenna að hanga þar. Það endaði nú með hálfgerðum ósköpum, því önnur vinkonan er nýskilin og er ofsalega upptekin af því að nýta sér hið nýfengna frelsi sem hefur lent í fanginu á henni núna. Hún sat þess vegna á kjaftasnakki við nýjasta fórnarlambið alla helgina og ekkert hægt að nota hana í stelpudjammið sem ég var þó búin að fórna heilmiklu fyrir!
Takk til deg, vennen!
Ég náði þó að redda málunum með einstökum hæfileika til að vera Pollýanna, lá í sólbaði báða dagana og naut þess að geta legið flöt á veröndinni án þess að hafa forvitna nágranna að góna á spikið mitt. Maður flatmagaði eins og maður var langur til og fílaði það alveg í græjur. Ég var meira að segja nógu gáfuð í þetta skiptið til að nýta mér undrakrem sem kallast sólarvörn, svo ég er ekki eins og eldgamalt, afdankað og úldið jólaepli með appelsínuhúð núna! Jibbíí!

Nú er guttinn minn kominn í sumarfrí og nú gildir það fyrir mig að reyna að finna fullt af skemmtilegheitum fyrir okkur til að láta tímann líða. Ég er viss um að hann á eftir að verða kolvitlaus á mömmu sinni áður en yfir lýkur! En maður reynir að gera hið besta úr þessu og hafa nóg að gera. Hann virtist allavega mjög hamingjusamur með það í morgun að fá að sofa út! Hann er það almorgunsvæfasta barn sem ég veit um!
Nóg um það, ég er farin í sturtu!

föstudagur, júlí 16, 2004 

Helgi helgi helgi (16.7.'04)

Jæja, þá er komin helgi hjá mér! Stráksi fer til pabba síns eftir leikskólann, svo ég er barasta í fríi. Er svona hálft í hvoru að velta fyrir mér að skella mér vestur um helgina og jamma svolítið með æskuvinkonunum, svona fyrst þær sjá ekki sóma sinn í að koma í siðmenninguna! Er eiginlega að vonast eftir sóðalegu fylleríi á gamla mátann þar sem við felum okkur bakvið búðina svo löggan sjái okkur ekki... Ok, ég veit vel að við erum komnar með aldur til að drekka, en það er miklu skemmtilegra að fóðra nostalgíuna svolítið!

Akkúrat núna er ég alveg að krepera á siðgæðislöggunni á barnalandi, það er alveg merkilegt hvað fólk nennir stundum að rífa kjaft yfir alls engu! Nú er víst kúkur og piss komið á bannlistann. Spurning um að fara að senda þessum háu frúm einkaskilaboð áður en maður setur eitthvað inn til að fá samþykki! Bara svona til að vera handviss á því að brjóta engar fyndnireglur að þeirra mati... Pifff....

En sem betur fer þarf ég ekki að tala máli mínu alein, þær voru víst fleiri þarna sem voru ekki með stærðarinnar naglaspýtudrjóla fastskrúfaðan í rassgatinu á sér og gátu hlegið svolítið með mér.

Nú ætla ég að fara að skólpa af mér skítinn (ekki alvöru skít, svona til að fyrirbyggja leiðindi) og gera + og - lista yfir það að fara vestur.

Lifið heil!

miðvikudagur, júlí 14, 2004 

BI-ATSCH! (14.7.'04)

Ég er hræðileg manneskja. Ég á aðeins örlítið eftir í það að geta kallast sori mannkyns.

Ok, þá er niðurrif dagsins búið, ekkert sem jafnast á við smá svona sárindi í morgun-sárið.

Nú hef ég ákveðið að leggja í það að gleðja mína fjölmörgu aðdáendur og pikka hérna inn eilífa orðaflauminn úr hausnum á mér. Verst að ég svaf eitthvað illa og boðleiðirnar úr heila út í fingurgóma eru eitthvað lúnar, svo þetta er að taka ágætis tíma. En ég hef svo sem allan daginn til að klára stílinn, svo þetta SKAL takast!

Víkingahátíðin var fín, fyrir utan hið augljósa (sem enginn sem þekkir mig ætti að þurfa að velta vöngum yfir), að það mígrigndi og var leiðinda rok og kuldi á aðaldeginum! Að sjálfsögðu var veðrið frábært á föstudeginum og sunnudeginum, en laugardagurinn var ískaldur og lásí. En ég er sem betur fer farin að þekkja inn á þessa neikvæðu orku mína sem dregur að sér óveður í hvert sinn sem eitthvað stórfenglega skemmtilegt stendur til, svo ég mætti undirbúin á svæðið með ullarpeysur, regn- og vindgalla, stígvél og fullt af pokum til að troða inn í þau stígvélin sem leka! Sólarvörnina og sólgleraugun skildi ég að sjálfsögðu eftir heima, þrátt fyrir að við lögðum af stað í brakandi djöfuls blíðu. Ég vissi að ég kæmi ekki til með að þurfa á draslinu að halda (sem reyndist rétt) og leyfði því þess vegna bara að liggja í skúffu hérna heima.

Stráksi minn skemmti sér að sjálfsögðu allt of vel og gekk berserksgang allan daginn (ekki ýkjur, hann stoppaði ekki einu sinni til að míga), nokkuð sem gerði það að verkum að hann bað um að fá að fara að sofa snemma á laugardagskvöldið. Honum var því skutlað heim til ömmu og afa og gat þá gleðskapurinn hafist fyrir alvöru! Hann stóð til um hálffimm um nóttina og fór að ég held bara vel fram í flesta staði. Það setti þó strik í reikninginn að aðalspíran í hljómsveitinni sem þarna spilaði undir bjórdrykkjunni hneig niður meðvitundarlaus allt of snemma og þurfti að fara í bæinn með sjúkrabíl. Þó held ég að megnið af mannskapnum þarna hafi vart tekið eftir því sökum ölvunar, svo sjóið gekk áfram.
Mér tókst að standa við markmiðið, að drekka mig ekki augafulla og voru það því aðeins fjórir bjórar sem liðu niður í mig þetta kvöld og ég vaknaði þess vegna hress og kát á sunnudaginn og byrjaði að taka saman. Maðurinn minn var ekki jafn heppin. -Segi ekki meir.

Nú er ég orðin grasekkja eina ferðina enn, kallinn flaug til Noregs í morgun að vinna og ég sé fram á 3 vikur í afslappelsi og næsheitum... úbbs, nei, ég meina sorg og gráti og gnístran tanna!! Hann kemur aftur 4. ágúst, rétt sleppur sem sagt við að eyða með mér verslunarmannahelginni, sem er ágætt, því ég held ekki að ég eigi eftir að gera neitt sérstaklega spennandi. Það þýðir jafnframt að í ár mun enn einn afmælisdagurinn hans renna upp sem ég get ekki verið með honum! *snufs*
Þetta er nú ekki einleikið, við erum búin að vera saman í tæp fjögur ár og ekki einu sinni hef ég getað dekrað við kallinn á afmælinu hans!

En sko mig, mér tókst að pikka heilan helling eftir allt saman! Nú ætla ég að vera dugleg og þvo hellingz af þvotti og taka hellingz til!

mánudagur, júlí 12, 2004 

Komin heim! (11.7.'04)

Þið getið tekið gleði ykkar á ný, ég er nefnilega komin aftur heim úr barbarismanum á vesturlandinu.
Ég ætla reyndar ekki að segja ferðasögu, af því að hún væri örugglega alveg drepleiðinleg. En ég á örugglega eftir að segja upp og ofan af herlegheitunum svona þegar ég má vera að því... Ég er nefnilega að sjá það að ég hef engan veginn nokkurn minnsta tíma til að pikka nokkurn staf núna vegna þess að þessar druslur á barnalandi hafa greinilega ekki séð sóma sinn í því að halda sér saman um helgina, heldur blaðrað sem aldrei fyrr, svo ég hef allt of mikla lesningu til að ná upp!

Thanx a bunch, guys!!

Ég ætla þess vegna að drífa mig í lesninguna og svo sé ég til hvort ég heiðra ykkur með skrifum mínum í kvöld.
Over and out.

föstudagur, júlí 09, 2004 

Föstudagurinn langi (9.7.'04)

Já, þetta er örugglega hann! Að minnsta kosti á hann örugglega eftir að reynast syni mínum skrambi langur, rétt eins og aðfangadagur jóla gerir yfirleitt.
Við förum nefnilega vestur í kvöld, nú verða lambaskankarnir nagaðir og gærurnar nýttar til hins ýtrasta! Svo ég tali nú ekki um vígamennsku mikla og berserksgang! Aftur til fortíðar, takk fyrir!

Það fylgir villimennskunni sá ókostur að ekkert netsamband er í dalnum, svo ég verð að valda ykkur miklum sálarkvölum með þeirri tilkynningu að ég á ekkert eftir að stytta ykkur stundirnar um helgina. En örvæntið ekki, hátíðin er öllum opin og ef þið saknið mín allt of mikið þá er guðvelkomið að mæta bara á svæðið með söngvatnið meðferðis og hjálpa mér að villimennskuvæða Dalamenn!

Heimilisfangið er:
Eiríksstaðir
Haukadal
Dalabyggð

fimmtudagur, júlí 08, 2004 

Ég er fífl! (7.7.'04)

Já, það er heilagur sannleikur! Ég er erkifífl og fæðingargrasasni! Ég á ekki fasta skrúfu í hausnum, blaðsíðurnar eru löngu horfnar úr honum sömuleiðis og það hringlar allt þarna inni í tóminu!

Hvað er þetta, er smá sjálfsniðurrif ekki bara hollt svona í bítið?
Ég var svo þreytt í gær og ömurleg eitthvað og ákvað þess vegna að falla ekki enn eina ferðina í þá gryfju að fara allt, allt, allt of seint að sofa og reyna að snúa þessum vítahring eitthvað við til að eignast örlítið meiri orku og ef til vill nota hana til að reisa minn super-sized ass upp af skrifborðsstólnum, þó ekki væri nema í nokkrar mínútur yfir daginn!
Hvað gerði mín? Ojú, lá yfir Queer as Folk langt fram yfir siðsamlegan háttatíma og festist síðan í norskum glæparóman þar til maður heyrði óminn af vekjaraklukkum nágrannanna! Þetta hafði auðvitað það í för með sér að ég vaknaði klukkan sjö (kemst ekki hjá því) í svoleiðis ólukkulegu ástandi að ég dauðvorkenni manninum mínum að hafa þurft að horfa upp á þetta!
Mér tókst að skafa sjálfa mig upp úr rúminu og gusa köldu vatni í trýnið á mér, svona rétt til þess að sofna ekki á leiðinni niður í Kringlu (kallinn að fara að vinna). Það heppnaðist svo vel að ég er enn vakandi, ef vakandi skyldi kalla! -Hversu lengi það varir er ég ekki viss um, glæparómaninn á náttborðinu er farinn að hrópa hástöfum á mig... eða er það rúmið sjálft?

Ferlega skondið að koma niður í Kringlu í morgun, vanalega er bílastæðið þarna tómara en tómt á þessum tíma morguns en því var síður en svo þannig farið í dag! Jú, útsala hafði hafist í NEXT klukkan sjö og þess vegna höfðu útsöluglaðir Íslendingar náttúrulega fjölmennt í Kringluna! Ég get svo svarið það, ég sé þessar kellingar fyrir mér stillandi vekjaraklukkurnar sínar í gærkvöldi, iðandi af spenningi rétt eins og um jólin eða hópreiðarferð í ónafngreindan sumarbústað í Grímsnesinu væri að ræða (úbbs, ekki tala af sér, bannað...)! Og vekjararinn skyldi að sjálfsögðu vera stilltur á 4:00 til að hafa tíma til að hafa tíma til að spartla í hrukkurnar og leggja hárið í rétta útsölu-lúkkið! Svei mér þá, ef þessi vekjaraklukkuómur var ekki sá sami og ég sofnaði í takt við í morgunsárið...

Ok, það skín kannski örlítið í gegn hjá mér að ég þoli ekki fólk sem á pénínga til að nota á útsölu í NEXT...

miðvikudagur, júlí 07, 2004 

Mee e e e e e (7.7.'04)

Geitin er að jarma um þjóðarstolt okkar Íslendinga, ég verð bara að segja að ég gæti vart verið meira sammála! Mér finnst einmitt alltaf svo fyndið hvað við erum fljót að grípa svona kurteisislegar umsagnir um landið okkar á lofti og láta eins og gestirni hafi fallið madly deeply in love with Ísland og geti ekki ímyndað sér betri stað á jarðríki! Get bara ekki ímyndað mér annað en að þessir háæruverðugu gestir hafi sínar skoðanir á landinu og einhverjum þeirra þyki það bölvað skítapleis en þeir kunna sig bara betur en svo að vera að básúna það! You go Geit!

 

Veiðidagur (7.7.'04)

Nú kemst ég ekki hjá því að standa við stóru orðin og fara með strákunum mínum að veiða. Manni minn var svo almennilegur í sér að kaupa veiðistöng fyrir lillamanna minn, og ég get víst ómögulega sagt nei við að vera fylgifiskur í fyrstu veiðiferðinni hans. Ég þarf víst að vera hirðljósmyndari.
Hamingjan var yfirþyrmandi hjá guttanum, það var ætt strax út á svalir og byrjað að æfa köst og svei mér þá ef drengurinn er ekki bara undrabarn í veiðiskap! Mér tókst með semingi að láta hann sættast á það að æfa köstin ekki með öngli, sé það nú rétt fyrir mér að aflinn hefði verið nokkuð góður þegar drengurinn hefði byrjað að krækja í ketti nágrannans...

Litlasystir kemur heim frá Baunalandi í kvöld. Ég er svona að vona að hún hafi komist í sturtu eftir Hróarskeldu, því ég vil EKKI fá hana í heimsókn dragandi á eftir sér leðjuna og vibbann, rétt eins og einhver mýrarmúmía! Nógu skítugt er nú hérna fyrir!

þriðjudagur, júlí 06, 2004 

Hvar er sólin? (6.7.'04)

Var ekki búið að lofa manni sólskini í dag líka? Ha? Hvað á þetta að þýða eiginlega? Ég sem treysti á það að sólin myndi brosa sínu blíðasta í dag og var því ekkert að stökkva á hana í gær! Best að ég fari bara að læra að vera almennilegur Íslendingur og nota þessar fágætu stundir ÞEGAR þær standa yfir en treysta ekki á einhverjar kolóáreiðanlegar spár hjá þessum (ó)veðurfréttamönnum!

Ég var að spá í að vera dugleg í dag...svo rann af mér geðveilan og ég fattaði hvað ég var að gera sjálfri mér með þessum þankagangi, bölvuð vitleysa, hvað var ég að spá! Muna að setja sér RAUNHÆF markmið, dúllan mín!!

Það má nú samt kannski segja að ég hafi verið dugleg, því ég fór jú á fætur þrátt fyrir að nenna því ekki, klæddi guttaling á leikskólann þrátt fyrir að nenna því ekki, fór á námskeið algerlega án þess að nenna því OG keypti mjólk í kaffið mitt án þess að nenna því. -Það kom nú reyndar bara af illri nauðsyn, því ég get ómögulega drukkið kaffið mitt mjólkurlaust!
Vinsamlegast hafið það í huga þegar þið bjóðið mér næst í kaffi! -Hvenær verður það annars? Ég er óþolandi ein...

Nú fer að styttast í Eiríksstaðahátíð og þangað verður sko haldið með sverð, skildi, víkingahjálma, drykkjarhorn og mjöð! Jú, og nokkrar lambasneiðar til að rífa í sig (helst hráar til að viðhalda villimennskunni temmilega vel) með guðsgöfflunum ef siðameistarinn (mamma) leyfir. Tjald og svefnfeldi verður maður víst að hafa til reiðu sömuleiðis til að allt fari nú ekki í skrall. En mjöðurinn er það sem ekki má gleymast. Sverð og skildi má verða sér úti um á staðnum, maður heggur bara mann og annan í herðar niður með grillspjóti frá einum af þeim óvillimannslegu, stelur vopnum þess sem fallið hefur í valinn fyrir spjótinu og málið er leyst! Og ef mjöðurinn reynist góður þá þarf maður enga svefnfeldi eða glóðaðar lambasneiðar til að viðhalda gleðinni.
En ég vil hafa þolanlegt veður, það er skilyrði! Ég er ekki tilbúin að ganga svo langt í villimennskunni að ég nenni að húka nötrandi af kulda undir blautu rolluhræi nagandi af því löppina. Svoleiðis skal aðeins líðast á Þjóðhátíð! Eða í Eyjafirði.
Blessaðir veðurguðirnir hafa nú ekki horft með mikilli velþóknun á Eiríksstaði í Haukadal í Dölum frá því að fyrst var blásið til þessarar hátíðar fyrir að mig minnir fjórum árum síðan. Svo ég skora hér með á Þór að halda sig allra náðarsamlegast heima í Þrúðvangi með sínar þrumur, eldingar og tilheyrandi rigningu og rok!!
Bið ég þá heldur Frey að mæta á svæðið með ti**ann sinn og blessa samkomuna!!!

mánudagur, júlí 05, 2004 

Dagur 1 (5.7.'04)

Í dag ætla ég að hætta að reykja.
Hmmm... í gær ætlaði ég líka að hætta að reykja. Sama sagan var það víst í fyrradag og daginn þar áður. Ég ætla að hætta að reykja, sko, það er alveg heilagur sannleikur! -Veit bara ekki alveg hvenær... 0

Ég er búin að komast að fyrsta gallanum við íbúðina. Það verður svo skrambi heitt inni í svefnherberginu mínu! Þótt ég sé með slökkt á ofninum og gluggann opinn þá vakna ég sveitt! -Kannski ágætt bara, þá lufsast maður kannski við að fara í sturtu oftar, hahaha!
En ég er að hugsa um að vera ekkert að kvarta neitt ofsalega yfir þessu fyrr en ég hef útilokað hamagang í svefnherberginu eftir háttatíma en fyrir svefntíma sem ástæðu. Ef grunur minn reynist á rökum reistur þá leysi ég málið bara með því að hætta að aðskilja þessa tvo tíma, heldur verður bara vaðið beint í svefninn og allt hitt látið liggja milli hluta...eða gert í gestaherberginu!

Það var víst nokkuð stór prósenta íslensku þjóðarinnar sem var á Metallica-tónleikum í gærkvöldi, ég vil nota tækifærið og óska þeim til hamingju með það og koma á framfæri heitri ósk um að enginn í þessu risavaxna gufubaði hafi verið smitaður af SARS!
Obbinn af tónleikagestunum safnaðist evidently saman fyrir utan svefnherbergisgluggann hjá mér í nótt, syngjandi góða Metallica slagara, ég fyrirgaf þeim það alveg og var ekkert að sussa á þau, vitandi það að hefði ég verið í þeirra sporum þá hefði ég bara sungið á mínu rósrauða skýi og ekki tekið eftir einhverjum sussunum hvort eð er! Það var bara gaman að fá svona smá bragð af tónleikunum, svona fyrst ég komst ekki á þá. Helvítis peningaleysi!! -Kommon, ég ÆTLA að hætta að reykja, láttu ekki svona!

Nú er það spurningin, hversu lengi mun ég hanga í tölvunni í dag? Ég er skelfilega hrædd um að það verði yfir mörkum siðgæðis og velferðar, því ég þekki nú minn innri mann/konu og veit að hann/hún setur ekki sjálfsstjórn og aga efst á sinn kostalista...

sunnudagur, júlí 04, 2004 

Bubblehead (4.7.'04)

Kallinn er farinn að veiða.
Vonandi ekki tjéllíngar... Ætli þær séu margar í Elliðavatni? Ég nennti ekki með, ætlaði að vera dugleg og fela pappakassa í dag. -Svona bara til að þurfa ekki að horfa á þá þangað til ég nenni að gera alvöru úr að taka upp úr þeim! Helvíti gott að hafa gesta(kassa)herbergi fyrir svona dót. Versnar kannski pínu þegar við förum að fá gesti!

Ég á ketti sem eru fíbbl, hoppa fram af svölunum og halda að þær séu queens of the world! Ég er búin að segja þeim að ef þær hoppa þá ætli ég sko ekki að fara út á eftir þeim, fari þær framaf þá eru þær on their fucking own! Vona svo bara að þær taki þetta til sín! Af hverju geta þessir asnar ekki bara verið lofthræddir (Acrophobia)? Maður horfir á þær dansa línudans á handriðinu á svölunum eins og þeim sé borgað fyrir það með músum!

Asnar!

 

Öllu má nú nafn gefa! (4.7.'04)

Hræðsla við loft: Anemophobia
Hræðsla við allt sem er nýtt: Neophobia
Hræðsla við bíla (ath. ekki bílhræðsla, heldur hræðsla við BÍLANA SJÁLFA): Motorphobia
Hræðsla við skegg: Pogonophobia
Hræðsla við það sem er vinstra meginn við líkamann: Levophobia
Hræðsla við háreistar byggingar: Batophobia
Hræðsla við róna og betlara: Hobophobia
Hræðsla við BÖRN: Pedophobia
Hræðsla við það sem kínverskt er: Sinophobia
Hræðsla við fatnað: Vestiphobia
Hræðsla við hægðatregðu: Coprastasophobia
Hræðsla við krossa: Staurophobia
Hræðsla við dans: Chorophobia
Hræðsla við dagsljós eða sólskin: Phengophobia
Hræðsla við rotnandi efni: Seplophobia
Hræðsla við drauma (aumingja þú!): Oneirophobia
Hræðsla við að borða eða kyngja (góð afsökun fyrir okkur konur): Phagophobia
Hræðsla við lim í reisn (enn betri afsökun fyrir okkur!): Medorthophobia
Hræðsla við skóga: Hylophobia
Hræðsla við frelsi: Eleutherophobia
Hræðsla við gamalt fólk: Gerontophobia
Hræðsla við gulan lit: Xanthophobia
Hræðsla við ALLT: Panophobia

 

Verðandi afmælisgjafir (3.7.'04)

Þetta er aðvörun til vinkvenna minna. Á næstu afmælum verða gjafir mínar til ykkar ósköp ómerkilegar og lítt spennandi, en það sama skal ganga yfir ykkur allar og það er ekki fallegt að skilja út undan.

Hver og ein einasta ykkar skal fá frá mér 3 in spiral-smokka og 1 stk. banana.

Þessi mikla gjöf er til þess ætluð að kynna ykkur fyrir undursamlegheitum fylgjandi notkun getnaðarvarna og vonandi koma í veg fyrir óléttu ykkar í náinni framtíð.
-Bananinn er að sjálfsögðu til að æfa sig á, ég er ekki heilsufrík eins og flestir sem til mín þekkja ættu nú að vita...

Mér er farið að leiðast að vera ein í heiminum! Sérstaklega svona á laugardagskvöldum, þegar ég sé fram á að eyða kvöldinu í videogláp með manninum eða heimspeki/sagnfræðinámskeið á skeiðvellinum! Ég á kút af hvítvíni í ísskápnum og þónokkuð magn af øli sem liggur undir skemmdum af því að enginn er fáanlegur til að drekka þetta upp með mér! Og ástæðan fyrir því er ofur einföld: Þið eruð allar annað hvort óléttar, fluttar út á land eða hreinlega farnar úr landi!

Hvers á einmana partíljón eiginlega að gjalda???

laugardagur, júlí 03, 2004 

Fer hann frá mér? (3.6.'04)

Ég er orðin hálf hrædd um að maðurinn minn fari að segja bless bless og pakka ofan í töskurnar sínar - endanlega.

Ég held að ég sé ógeðslega móðgandi kona við hann, og botna eiginlega ekki í því hvers vegna hann er ekki búinn að taka eitt url á mér! Ég er bara klikkuð!

Ok, svona er málið: Það vill brenna við svona á fullu tungli og svoleiðis að kallinn reyni að "stíga í vænginn" við mig, gerist voða sætur og fer að athuga hvernig landið liggur í rúmfræðinni. Jamms, allt í fína með það, rúmfræðin er skemmtileg og til þess er nú skeiðvöllurinn gerður, ekki satt? Nema hvað, þegar vesalings kallinn er farinn að klappa mér og strjúka þá losnar um einhverja spennu og allt í einu eignast ég ímyndunarafl! Og þá er nú voðinn vís. Ég fer að velta fyrir mér öllum fjandanum, gerist virkilega heimspekileg og djúpt þenkjandi, velti fyrir mér alls konar steypu sem eflaust leggst ekki vel í minn mann þegar hann er að gera sitt besta við að koma mér til!

Svona sem dæmi um fáránlegheit sem dottið hafa upp úr mér í hita augnabliksins:

"Hvernig segir maður tannbursti á norsku?"

"Ætli gólfin í Skakka turninum séu ekki hallandi? Ef maður leggur bolta á gólfið þar, rúllar hann þá ekki bara út í horn?" (Turninn var sívalur þegar ég sá hann síðast)

"Var Kristján IX. norskur eða danskur?"

"Hugsaðu þér, á næstu jólum þá höfum við pláss fyrir jólatré í íbúðinni!"Er sambandið dautt?

 

ÉG ER EKKI ALKI!! (2.7.'04)

Almáttugur minn eini, ég er að sjá það núna að ég er bullandi alkohólisti! Hvað á ég að gera??

Ég rakst inn á síðu hjá sáá þar sem var hægt að taka sjálfspróf og samkvæmt því þá er ég alki. Þenk jú verí mení!

Reyndar er ég ansi smeyk um að þetta próf sé sá almesti hrossaskítur sem ég hef nokkurn tíman séð! Ok, það er svona:

1. Hefur þér einhvern tímann fundist að þú þyrftir að draga úr drykkjunni?

(Mitt svar: Jahá, fjandinn hafi það! Ég get sko sagt ykkur það að þegar ég var 16 ára þá vaknaði ég á sunnudagsmorgni við hlið manns sem ég átti í töluverðum erfiðleikum með að muna hvað hét og þar að auki með þá alverstu timburmenn sem um getur sagandi, berjandi, borandi OG neglandi í höfðinu... Hvaða heilbrigða manneskja hefði EKKI hugsað undir þessum kringumstæðum; "úfff maður, ekki meira svona!")

2. Hefur fólk gert þér gramt í geði með því að setja út á drykkju þína ?
(Mitt svar: Já, mamma var nú ekkert allt of líbó út í þetta á sínum tíma... Man nú eftir ófáum rifrildunum við hana sko...)

3. Hefur þér einhvern tímann liðið illa eða haft sektarkennd vegna drykkju þinnar?
(Sjá svar við nr. 1)

4. Hefur þú einhvern tímann fengið þér áfengi að morgni til að laga taugakerfið eða losa þig við timburmenn?
(Mitt svar: Já. Á ættarmóti um þarsíðustu helgi fékk ég mér kettling að morgni, veit nú ekki alveg hvort það var gagngert til að "laga taugakerfið eða losa mig við timburmenn" eða hvort mig langaði bara í bjór og aðstæðurnar leyfðu það, en jú, skrattakollurinn hjálpaði!)

Hver ætli sé svo niðurstaðan? Hmmm...*************
"Tvö já við þessum fjórum spurningum staðfesta að áfengissýki er á ferðinni og nákvæmnin er talin um 80% en ef svörin eru já við 3 eða 4 spurningum er nákvæmnin nær 100%. Eitt já kallar á frekari athugun en ef þú hefur ekki svarað neinni spurningu játandi getur þú verið róleg(ur) því áfengisneyslan er eðlileg.

Af svörunum að dæma er áfengissýki á ferðinni og nákvæmnin er nálægt 100%.

Útkoman bendir til áfengissýki og er það mjög alvarlegt mál ef ekkert er að gert. Leita skyldi til fagfólks með sérþekkingu á þessu sviði, hjá SÁÁ eða öðrum sem hafa slíka þekkingu."
**************


O-K....


Hvernig í ósköpunum er hægt að segja að já-svör við þessum spurningum gefi nær 100% nákvæmni í þeim efnum að um áfengissýki sé að ræða??!!??
Fjandinn hafi það, spurningarnar eru þess eðlis að það er skratti erfitt að svara þeim öllum neitandi, þ.e.a.s. ef maður á nokkurn veginn "eðlilega" reynslu í drykkjumálum að baki (þá meina ég tilraunastarfsemi á unglingsárunum með tilheyrandi árekstrum og kjánaskap)
"Einhvern tímann" kemur fyrir í 3 af fjórum spurningum og ég er nokkuð viss um að "einhvern tímann" er frekar víðtækt hugtak, "einhvern tímann" spannar jú allt líf manns!

föstudagur, júlí 02, 2004 

Af hverju?

Af hverju þurfti veðrið að verða svona? Var svo heitt og fínt í gær, ég var svo búin að hlakka til að láta verða af því að fara út og sleikja fínheitin! En neeei, þurfti náttúrulega að koma svona rigningarsuddi... Ekki hamingjusöm ung kona hér!

Ég ætla þó ekki að láta það buga mig, heldur ætla ég að klæða mig úr náttkjólnum og í eitthvað "less comfortable" og gera eitthvað af viti hérna. Hahaha, góður þessi!

Ég var að vonast til að hitta kannski á ástkæra systur mína um helgina, hún er víst komin á klakann og mér finnst þá varla annað hægt en að hitta lillusystu og knúsa hana aðeins, svona til málamynda. Nú bíð ég bara eftir að hún hafi tíma fyrir mig í stundatöflunni sinni.

Ok, that´s all, folks!

fimmtudagur, júlí 01, 2004 

Maður er lúsugur (2.7.'04)

Æ ég er eitthvað svo lásí í dag, fékk internetið loksins tengt í gær og í dag er ég bara í því að fixa fráhvarfseinkennin sem ég var komin með. Úti er fínt veður og ég sit bara hérna við tölvuna og er m.a.s. búin að draga fyrir gluggana til að sjá á skjáinn! Hversu ómögulegur er eiginlega hægt að vera??

Náði samt að hlussast niður í Kringlu til kallsins og úða í mig hádegisfæðu með honum. Annars er bara pabbahelgin hafin hjá mér, degi fyrr en vanalega, svo ég veit hreinlega ekki hvað ég á af mér að gera. Er svona hálfpartinn búin að vera að spá í að leggja mig í dag en einhverra furðulegra hluta vegna þá sit ég hér enn. Eins gott og það nú er þá þjáist ég samt af miklu samviskubiti og leiðinlegheitum yfir því að vera ekki að gera eitthvað sem skiptir máli. Er búin að ljúga því að sjálfri mér að ég sé komin með pappakassaofnæmi og geti þess vegna ekki klárað allra síðustu kassana sem standa hérna eins og illa skitin lambaspörð út um alla íbúð! Þannig að hér sit ég enn og dæli í mig lungnakrabba fyrir heilt fótboltalið og svolgra kaffið og sýg korginn...

Ég fór nú samt með Dúsku á svalirnar áðan og kembdi henni og klippti úr flóka og svoleiðis, vesalings kattarkvölin hefur verið illa vanrækt síðustu vikurnar út af flutningunum og var eiginlega öll að fara í hnút. BÓKSTAFLEGA! Mér tókst líka að hengja upp úr einni vél og setja í aðra, vaska upp og fara með tvo kassa (úr plasti) niður í geymslu.

Ja, þannig að þegar ég lít svona á þetta þá er ég kannski ekkert svo lúsug eftir allt saman!!

 

Aftur orðin siðmenntuð (1.7.'04)

Ég er flutt, nanananananaaaa! Íbúðin stenst enn allar kröfur og okkur líður mjög vel. Meira að segja kettirnir mala hærra en venjulega, held að það tengist útiverunni á svölunum...

Ég minglaði soldið við kóngafólk um daginn, lítið mál að kíkja á sönnunargagnið hérna. Ég er ekki photoshopsnillingur, svo ykkur er best að trúa þessu bara. Ekki það, það virðist vera lenska að vita ekki hverjar þessar stórmerkilegu manneskjur eru en ef þið vitið það ekki þá er það bara too bad fyrir ykkur! Hahaha! Gúgliði því bara! T.d. "Liliana, the grand empress of the world meets the king and queen of Norway to be" eða eitthvað... Munið bara að hvítt lætur mann virðast feitari en raunin er! Ég er sko nefnilega aðeins um 15 kíló í alvörunni...