Li|iana on Ice

sunnudagur, nóvember 19, 2006 

Flutningar og læti

Jæja ég ákvað að prófa 123.is, þar er öllu heilbrigðari læsing í gangi. Nýja heimilið verður sem sagt á http://123.is/Liliana og það er minnsta mál í heimi að redda leyniorðinu, bara láta í sér heyra. Adjö.

þriðjudagur, nóvember 14, 2006 

Læsing?

Mig er loksins farið að langa til að blogga aftur. En mig langar ekki lengur til að blogga fyrir hvaða Jón og Gunnu, pípara, prest eða hóru sem hingað villist inn. Svo ég fór að velta því fyrir mér að læsa pleisinu bara fyrst blogger er farinn að bjóða upp á það. Gallinn er að þá get ég bara veitt gmail-notendum aðgang að svæðinu. Og svo allt of margir af vinum mínum og fjölskyldumeðlimum eru fullkomlega tölvufatlaðir. Ég myndi ekki treysta þeim til að finna shift-takkann á lyklaborðinu sínu, hvað þá verða sér úti um heilt tölvupóstfang!
What to do, what to do?

laugardagur, nóvember 11, 2006 

Fleh..

Ný tölva. Jammz. Voða flott og fín og svaka gaman að pikka á hana. Verst að ég hef ekkert að segja. Svo hér er sjálfspróf:

Your Eyes Should Be Hazel

Your eyes reflect: Intellect and sensuality

What's hidden behind your eyes: Subtle manipulation

þriðjudagur, september 12, 2006 

Fokkhólmur

Ég þarf að fara til Stokkhólms í næstu viku, einhver leiðindafundahöld og bögg. Það súra er að fundirnir eru á þriðjudag og miðvikudag en flugið mitt út er í bítið á mánudaginn og heim um eftirmiðdaginn á fimmtudaginn. Það þýðir að ég hef böns af tíma að drepa í Stokkhólmi sem ég veit ekkert hvað ég á að gera við.
Ég fór til Stokkhólms um svipað leyti í fyrra, það var fyrsta ferðin mín þangað og ég kann þrælvel við pleisið. Dúndurfalleg hola. En það er bara grútleiðinlegt að mæla göturnar þar aleinn og blankur og hafa ekkert að gera. Það er ekki einu sinni eins og ég geti húkt á hótelherberginu með tölvuna mína á netinu út af því að...? Jú af því að ég eyðileggjaði hana! Hvað gera einmana, blankir Íslendingar þá?
En hey, þótt ég þurfi að sitja á herberginu og horfa á veggina ætti það þó ekki að vera of sjabbí, mér sýnist þetta vera ágætasta búlla alveg.

 

Hrakfallagenið...

Ætli það sé hægt að fá Klára-Kára til að rannsaka það eitthvað? Mér þætti allavega vænt um frekari upplýsingar um það, sérstaklega þar sem allt útlit er fyrir að sonur minn hafi fengið það...

Eins og lesendur mínir vita sennilega flestir þá var ég drottning klaufalegra slysa í ungdæmi mínu; ég hljóp á bíl tannlæknisins og mölvaði í mér tannstellið, ég synti á sundlaugarbakka, ég datt af kyrrstæðu hrossi og reif nokkra vöðva í bakinu í tætlur og ég er ein fárra sem hefur tekist að henda sér í jörðina og hitta ekki... Eða sko, ég hoppaði niður af húsi, ætlaði að lenda á RISASTÓRRI hástökksdýnu, en ég hitti ekki á hana, húrraði beint í jörðina og stórslasaði mig.

Hvað um það, ég hef ekki lent í neinu í allnokkur ár (7,9,13) en nú virðist gaurinn minn vera tekinn við. Honum tókst snilldarlega að hjóla Á HÚS í gær og brjóta á sér úlnliðinn!
Hann hjólaði á blússandi ferð niður snarbratta brekku sem liggur niður að húsinu, en brekkan var rennandi blaut, svo að þegar hann ætlaði að bremsa þá virkaði bara ekki neitt og hann þeyttist beint á húsið af fullum krafti.

Hann er merkilega brattur samt, kvartar ekki neitt nema yfir 'ógeðslegu steypulyktinni' af gipsinu. Finnst eiginlega mjög kúl að vera með svona klump sko... Ég er mest hissa á að hann hafi sloppið með brákaðan úlnlið, því nýja flotta hjólið hans er í fokking stöppu, það hreinlega brotnaði í fjóra parta! Hjálmurinn hans er líka í frumeindum, það er greinilegt að hann bjargaði því að ekki fór verr.

Hérna er hann að sinna tilkynningaskyldunni til fjölskyldunnar, hann var mjög spenntur yfir því að komast heim í símann og segja öllum sem við þekkjum frá þessum ósköpum:



Við fórum á bókasafnið í dag (það vill svo til að það var bókasafnið sem hann skellti sér á) og hann sýndi mér hvar slysið varð. Ég horfði á brekkuna, horfði á húsið, horfði aftur á brekkuna og síðan á drenginn. Ég verð eiginlega að segja að mér þykir hann kaldur að hafa látið sér detta í hug að koma nálægt þessarri brekku á hjóli yfir höfuð. Ég fæ hroll niður bakið við tilhugsunina, miðað við hvernig þetta lítur allt út þarna þá finnst mér það kraftaverk að hann liggur ekki á sjúkrahúsi núna. *fjúff*

fimmtudagur, ágúst 31, 2006 

Kynni mín af hreinni illsku

Ég fór að versla áðan og það var maður sem stóð við hliðina á mér við kassann sem lyktaði svo skelfilega að ég átti í mesta basli með að halda ælunni frá því að frussast yfir allt og alla í návígi við mig. Ég er ekkert að grínast, ég kúgaðist og kúgaðist, mannandskotinn lyktaði eins og hreinræktaður viðbjóður.

Sá djöfull sem ég á að draga í þessu lífi er sá að ég er ofurlyktnæm og svona fólk bara höndla ég ekki. Á þessum manni blandaðist saman öll sú ógeðslegasta lykt sem ég get ímyndað mér; úldin rassafýla, stæk svitalykt, hárfitufnykur, súr tóbaksstybba, hland- og hægðalykt, táfýla, typpalykt og andremma. Yfir herlegheitunum sveimaði svo blindandi ský af bleikum Joop! (!!!)
Það furðulega er að þrátt fyrir þennan hrylling þá leit maðurinn alveg fjandi vel út, þetta var í það minnsta ekki einhver róni. Hann var uppdressaður í jakkaföt og ég er hræddust um að hann hafi verið á leiðinni í veislu eitthvert. Guð hafi miskunn með sálum þeirra vesalinga sem verða á vegi þessa manns!

Í hreinustu alvöru talað... ætti svona ekki að vera ólöglegt? Manni skilst jú að það sé bannað að rigsa um bæinn nakinn, það gæti sært blygðunarkennd einhvers. En ég skal segja ykkur það í fullri einlægni að svona hryllingur særir mig svo mikið meira en nokkurn tímann einhver strípalingur!

Ég stóð sem sagt við kassann og beið eftir að þunnildið sem afgreiddi mig renndi vörunum í gegn... engin undankomuleið nema til vinstri. Ég mjakaði mér frá skítafýlukarlinum en hann elti mig bara! Ég sneri andlitinu frá honum og reyndi að láta lítið bera á því hvað ég kúgaðist en þunnildið hlýtur að hafa séð það betur, enda var ég orðin fjólublá í framan og augun full af tárum. Svo borgaði ég með kortinu mínu og þunnildið leggur miðann á borðið svo ég geti kvittað á hann. Ég þurfti að þrýsta mér upp að ýldunni til að komast í miðann og þá magnaðist æluþörfin svo svakalega að ég varð að gera mér upp hóstakast til að fólkið tæki ekki eftir því að ég var blátt áfram að kúgast þar til ég stóð á öndinni yfir ólyktinni af þessum haugi!

Svo kom ég heim og ég get barasta svo svarið það að mér þótti lyktin loða við mig alla svo ég fór í sturtu. Brennheita.

Er hægt að kæra svona efnahernað eitthvert?

þriðjudagur, júlí 25, 2006 

Heimska hyski!

Mér þykir vænt um málið mitt. Ég er stolt af tungumálinu og mér þykir það blátt áfram sárt þegar því er skammlaust nauðgað í skraufþurrt rassgatið hvað eftir annað.
Verra finnst mér eiginlega að verða vitni að því að virðingin fyrir málinu virðist algjörlega fokin út í veður og vind hjá fréttamiðlunum. Ég les varla frétt á íslensku fréttasíðunum lengur án þess að hún innihaldi villur. Þetta eru engar smávillur heldur, textinn virðist stundum líta út fyrir að vera skrifaður af sjö ára syni mínum! Viljið þið sönnun? Þetta mátti sjá á mbl.is í dag:

Sigurrós mynduð í Ólafsvík

Hljómsveitnn Sigurrós verður með tónleika í félagsheimilinu Klifi í kvöld, og lofar Jónsi söngvari hljómsveitinar að þetta verði glæsilegir tónleikar, en tónleikanir verða kvikmyndaðir vegna kvikmynar sem er verið að gera um sveitina.

Í morgun fór fram myndataka í fjörunni í Ólafsvík, og var Jónsi í góðum félagskap ungra aðdáenda sem flykktust að Jónsa og var hann greinilega vinsæll meðal barna, og naut hann sýn vel meðal þeirra og lék á alls oddi

Fréttin er hér.

FÍFL!

Fólk sem er þetta illa skrifandi (eða er það skryfani?) á bara andskotann ekkert að fá að troða fingrunum í fréttirnar! Drullið ykkur í fiskvinnslu, í hellulagningar eða leigumorð! Bara eitthvað sem krefst þess ekki að þið getið stafsett örlítinn pistil! Hættið að stúta málinu mínu!

Þvílýkt glatað mar!

mánudagur, júní 26, 2006 

Fólk er pakk

Hún er undarleg, þessi árátta í Íslendingum að þurfa að byggja ljót hús.
Enn undarlegra finnst mér að áráttan virðist líka snúast um að það verði umfram allt að byggja sem flest ljót hús á mjög takmörkuðu svæði.

Nú get ég ekki sagt að ég búi í einu fegursta hverfi Reykjavíkurborgar - ég bý í Efra-Breiðholti, sem ég held að megi segja að sé það alljótasta. En nú er verið að taka örugg skref í átt að því að gera það nánast óbærilega ógeðslegt.
Hér er fátt annað en viðurstyggilegar steypublokkir. Hryllileg, kæfandi, sálardrepandi bákn full af: a) peningalega fötluðu fjölskyldufólki (moi), b) útlendingum (unnustinn) c) félagslega fötluðum dópistum/rónum, d) illa lyktandi geðsjúkum gamalmennum.
Ókei... þetta er alhæfing. En hreint ekki úr lausu lofti gripin.

Ég sætti mig við það að hverfið er ljótt. Reykjavík er ljót borg, svo einfalt er það. Svo maður getur víst ekki sett miklar kröfur um fegurðarfræðilega fullkomnun í ódýrum hverfum sem þessu. En það sem ergir mig í augnablikinu er að síðustu vikurnar hefur stór vinnuhópur unnið hörðum höndum rétt fyrir framan svalirnar hjá mér í því að byggja enn eitt báknið. Og það á einu síðasta lausa landsvæðinu sem hægt var að finna hérna. Jamm, nýta skal hvert það land, sem er meira en tíkall að flatarmáli, undir viðbjóðslegar steinsteypuhallir og malbik. Amen. -Er þetta annars ekki bein tilvitnun í einhverjar ályktanir svæðisskipulags borgarinnar? Það hlýtur bara að vera.