Li|iana on Ice: ágúst 2006

fimmtudagur, ágúst 31, 2006 

Kynni mín af hreinni illsku

Ég fór að versla áðan og það var maður sem stóð við hliðina á mér við kassann sem lyktaði svo skelfilega að ég átti í mesta basli með að halda ælunni frá því að frussast yfir allt og alla í návígi við mig. Ég er ekkert að grínast, ég kúgaðist og kúgaðist, mannandskotinn lyktaði eins og hreinræktaður viðbjóður.

Sá djöfull sem ég á að draga í þessu lífi er sá að ég er ofurlyktnæm og svona fólk bara höndla ég ekki. Á þessum manni blandaðist saman öll sú ógeðslegasta lykt sem ég get ímyndað mér; úldin rassafýla, stæk svitalykt, hárfitufnykur, súr tóbaksstybba, hland- og hægðalykt, táfýla, typpalykt og andremma. Yfir herlegheitunum sveimaði svo blindandi ský af bleikum Joop! (!!!)
Það furðulega er að þrátt fyrir þennan hrylling þá leit maðurinn alveg fjandi vel út, þetta var í það minnsta ekki einhver róni. Hann var uppdressaður í jakkaföt og ég er hræddust um að hann hafi verið á leiðinni í veislu eitthvert. Guð hafi miskunn með sálum þeirra vesalinga sem verða á vegi þessa manns!

Í hreinustu alvöru talað... ætti svona ekki að vera ólöglegt? Manni skilst jú að það sé bannað að rigsa um bæinn nakinn, það gæti sært blygðunarkennd einhvers. En ég skal segja ykkur það í fullri einlægni að svona hryllingur særir mig svo mikið meira en nokkurn tímann einhver strípalingur!

Ég stóð sem sagt við kassann og beið eftir að þunnildið sem afgreiddi mig renndi vörunum í gegn... engin undankomuleið nema til vinstri. Ég mjakaði mér frá skítafýlukarlinum en hann elti mig bara! Ég sneri andlitinu frá honum og reyndi að láta lítið bera á því hvað ég kúgaðist en þunnildið hlýtur að hafa séð það betur, enda var ég orðin fjólublá í framan og augun full af tárum. Svo borgaði ég með kortinu mínu og þunnildið leggur miðann á borðið svo ég geti kvittað á hann. Ég þurfti að þrýsta mér upp að ýldunni til að komast í miðann og þá magnaðist æluþörfin svo svakalega að ég varð að gera mér upp hóstakast til að fólkið tæki ekki eftir því að ég var blátt áfram að kúgast þar til ég stóð á öndinni yfir ólyktinni af þessum haugi!

Svo kom ég heim og ég get barasta svo svarið það að mér þótti lyktin loða við mig alla svo ég fór í sturtu. Brennheita.

Er hægt að kæra svona efnahernað eitthvert?