Li|iana on Ice: mars 2006

þriðjudagur, mars 21, 2006 

Ælt á presta!

Ég kíkti í DV í hádegishléinu mínu í dag. Ég sat í 10-11 og var að gæða mér á drykkjarjógúrt og banana.
Ég rak augun í athygliverða frétt. Svo virðist sem drengstauli hafi tapað morgunmatnum yfir prestinn í sinni eigin fermingu.

Ætli samviskubitið hafi hrjáð hann svona svakalega?

Hann sem sagt tók sig bara til strákurinn og ældi yfir prestinn! Gott ef það voru ekki fleiri prestar á staðnum en einn og mér skilst að hann hafi bara ælt á þá alla. Reglulegt 'Exorcist'-dæmi í gangi í Grafarvoginum.

sunnudagur, mars 12, 2006 

Fermingakjaftæði!

Ég er alveg að eipa yfir á þessari fermingamaníu sem nú er farin af stað. Ja... þetta er svosem ekki nýtt af nálinni, það er fermt á hverju ári. En í ár er ég bara búin að fá nóg.

Ég hef, undanfarna mánuði, verið mikið að velta fyrir mér þessu með trúarbrögð og áhrif þeirra á mannkynssöguna. Á það hvernig fólk hagar sér og hvernig vissir atburðir þróast, hvernig löndum er stjórnað og stríð rekin. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að ég er mikið á móti skipulögðum trúarbrögðum. Ég vil ekki sjá þetta! Inntakið í þessu öllu saman er það sama, en einhvern veginn skapast alltaf öfgar sem aftur leiða það af sér að í odda skerst og allt fer í bál og brand. Það virðist bara ekki vera hægt að koma í veg fyrir það.
Ég er hreint ekki frá því að meira illt hafi skapast í heiminum vegna trúarbragða en nokkurn tímann gott. Í það minnsta finnst mér það þegar ég horfi á ástandið á Jörðinni á þessum síðustu (og verstu?) tímum. Það logar allt í deilum og einkennilegheitum út um allt vegna trúarbragða fólks og túlkunar mismunandi aðila á trú. Þetta er úti um allt. Múslimar að tapa sér út af teiknimyndum, ofstækisleiðtogi að tapa sér út af ættleiðingum samkynhneigðra... Ég þarf sennilegast ekki að tuða lengi yfir mínum dyggu lesendum um mannkynssöguna í heild sinni - sem virðist hreint út sagt vera öll útötuð í drullu og viðbjóði sem upp hefur komið vegna trúarbragða. Nei, ég er ekki sátt við þetta.

Ég trúi. Ég hef sterka og mikla trú sem hefur hjálpað mér mikið gegnum mína erfiðleika, stóra og smáa. Ég reiði mig á þessa trú og er afar sátt við hana. Já ég er 'trúari'.
En ég þarf enga bók til að segja mér hverju ég á að trúa eða hvernig ég á ekki að haga mér.
Ég þarf enga byggingu eða helgan stað til að komast í snertingu við minn guð.
Ég þarf ekki leiðtoga til að beina mér hingað og þangað eða til að kenna mér muninn á réttu og röngu.
Ég þarf ekki ævaforna, sögulega karaktera til að fyrirgefa mér syndir mínar.
Ég kem til með að vera fullfær um að innræta börnum mínum góðan karakter þrátt fyrir að ég telji Biblíuna kreddufullt og úr sér gengið rit.
Ég hef trú. Þú veist ekki hvers eðlis hún er, enda hef ég enga knýjandi þörf fyrir að kúga fólk til að skilja mig. Ég hef enga löngun til að predika yfir fólki um hvernig það á að haga sinni trú. Ég þarf ekki að smala saman fólki um mína trú. Hún er mín. Vegna þess að hún er það sem hún er; trú. Þetta er eitthvað sem ég er bara með í mér, ekki út af því að einhver hefur sagt mér að svona eigi það að vera, heldur út af því að mér finnst þetta vera svona. Í orðabók er m.a. þessa skilgreiningu að finna:
"hafa trú á e-u > treysta e-u, trúa því að e-ð sé til, að e-ð sé svo eða svo."
Það að trúa einhverju er sem sagt bara að trúa því. Ekkert flókið við það. Ég er þeirrar skoðunar að um leið og einhver annar segir þér hverju þú átt að trúa þá sé trúin ekki þín lengur.
Ég er sátt með mitt.

Ég áttaði mig ekki á þessu fyrr en núna á gamals aldri. Já allt í lagi, ég er kannski ekki ævaforn, en ég er ekki krakki lengur. Ég hafði ekki þroska til að skilja trúna mína fyrr en nýlega - og ég hafði hana svo sannarlega ekki þegar ég var þrettán ára og gekkst undir fermingu.

"Halda veislu og fá kúl gjafir og fullt af peningum? Frábært!
Smala saman fjölskyldunni og borða góðan mat? Alltaf til í það!
Staðfesta trúna? Ha... jú af hverju ekki? Það gera það allir hinir!"

Ég var sem sagt fermd. Ég játti því að ég vildi gera Jesúm Krist að leiðtoga mínum. Ég kyngdi oblátunni og saup á messuvíninu, ég samþykkti að verða lamb Guðs, að halda mig við þessa trú sem mér var plantað í sem fóstri af foreldrum mínum, af samfélaginu sem við lifum í.
Vissi ég hvað ég var að samþykkja? Gerði ég mér grein fyrir því hvað þetta felur í sér? Var þetta einlægur ásetningur minn, heit ósk? Nei engan veginn. Satt að segja velti ég þessum hlutum lítið sem ekkert fyrir mér í þá daga og ég get nokkurn veginn fullyrt að enginn bekkjarfélaga minna gerði það heldur.

Mér er boðið í tvær fermingarveislur í ár. Ég geri fastlega ráð fyrir að mæta með bros á vör, enda þykir mér ennþá gaman að mæta í veislur, hitta fjölskylduna og borða góðan mat. En hverju er verið að fagna? Hvert er tilefnið? Maður er jú vanur því að veislur séu haldnar að einhverju tilefni. Hvers vegna eru salirnir leigðir? Af hverju jafnast undirbúningur fermingarveislna í dag á við undirbúning meðalbrúðkaups? Af hverju eru foreldrar upp til hópa að eyða heilum mánaðarlaunum í gjafir barnanna sinna? Hvar kom þetta gerræði inn í myndina? Getur verið að þetta sé einhvers konar samviskubit? Getur mögulega verið að við vitum að þessi athöfn er marklaus fyrir börnin nú til dags og reynum að fela það í fína matnum og mikilfengleika veisluhaldanna og gjafanna? Skiljum við hræsnina en viljum ekki gangast við henni?
En jú. Ég mun mæta í fermingarveislur frændsystkina minna og fagna einhverju sem ekkert er.

Ég er hræsnari líka. Ég held upp á jólin, ég held upp á páskana. Þessum trúarhátíðum fylgja oftast nær kærkomnir frídagar og tækifæri til að vera með fjölskyldunni, gleðjast saman og borða góðan mat. Þetta geri ég þrátt fyrir að eina tilfinningin sem Biblían vekur hjá mér sé aðdáun (ég dáist að því að sögurnar voru ritaðar og að einhvern veginn var hægt að koma milljónum manna um allan heim til að gleypa þær hráar. Það verður að gefa þannig áróðursherferð einhver stig). Hvernig er það annars, myndi jólahátíðin leggjast af ef minnihluti Íslendinga væri skráður í Þjóðkirkjuna? -Þetta var útúrdúr.

Kjarni málsins finnst mér vera að fjórtán ára börn hafa ekki nokkra minnstu hugmynd um hvað þau eru að samþykkja. Þau eru fæst hver staðföst í sinni kristni. Þeim þykir bara fínt að fá að halda veislu! Og gjafirnar maður! Hvernig væri að veita þessum greyjum eitthvað raunverulegt val? Hvernig væri að ferma við átján ára aldur? Það er tæplega rökrétt að láta fjórtán ára barn ákveða eitthvað svona stórt, þegar allt í samfélaginu þessa dagana miðar að því að púðra undir rassana á börnunum fram eftir öllu. Margir leyfa ekki einu sinni fjórtán ára börnunum sínum að vera ein heima! En fólk stendur samt sem áður keikt í kirkjunni, stolt af barninu við þessa athöfn þar sem barnið staðfestir trú sína. Þar sem það skrifar undir að vera hluti af því sem hefur kallað hvað mestar hörmungar yfir heimsbyggðina.

Hvernig væri að miða við tvítugsaldurinn? Þegar maður veltir því fyrir sér þá er varla viðeigandi að vera að hella messuvíni ofan í blessuð börnin þegar þau eiga, þegar allt kemur til alls, ennþá sex ár eftir í að mega ákveða hvort þau drekka vín eða ekki!

fimmtudagur, mars 09, 2006 

Kaffipæling

Gefum okkur að ég helli venjulega upp á kaffi þannig að ég noti fimm bolla af vatni og sex skeiðar af kaffi.

Ég geri þetta þrisvar sinnum og helli afrakstrinum á könnu.
Verður þetta kaffi eins á bragðið og ef ég geri einn uppáhelling úr fimmtán bollum af vatni og átján skeiðum af kaffi?

Þessi spurning hefur brunnið mér á vörum síðan ég var smábarn en ég hef aldrei kunnað við að spyrja einhvern um þetta af því að mér finnst þetta svo heimskulegt. En nú nenni ég ekki að pæla í þessu lengur. Ég vil SVÖR!

Rökstudd svör leggist í komment takk.

miðvikudagur, mars 08, 2006 

Stytting framhaldsskólanáms

Ég er á móti því í þeirri mynd sem verið er að ræða núna. Ég sé ekki hvernig þetta á ekki að koma niður á námi fólks í menntaskóla.

Hins vegar finnst mér að það eigi að lengja grunnskólann. Grunnskólinn ætti að taka yfir aldurinn 6-18 ára og þá hefðist framhaldsskólinn og yrði í tvö ár. Það nám sem fram fer á fyrstu tveimur árum í framhaldsskóla færi þá fram á síðustu tveimur árum grunnskólans.

Þá vitið þið það.

 

Einu sinni voru úlfur, ljón og önd að tala saman og metast sín á milli.

Úlfurinn sagði: "Þegar ég urrrra, þá skjálfa öll smádýrin í skóginum!"

Ljónið bætti um betur og sagði: "Þegar ég öskra þá skelfur allur skógurinn!!"

Þá sagði öndin: "Isssss...... það er ekkert.... ef ég hnerra þá skelfur öll heimsbyggðin!!!"

 

Erfitt...

Já það er erfitt að finnast maður lélegur fyrir að hafa fengið bloggrakettu í rassgatið og detta svo úr stuði aftur! Af hverju get ég ekki haldið mig við efnið? Ég fer daglegan bloggrúnt hjá fólki sem er miklu duglegra en ég, alveg fáránlegt að ég skuli ekki geta þetta líka!

Jamm, svo ég settist niður núna, gagngert til að blogga. Og hvað? Ég er tóm! Man ekki eftir neinu nógu sérstöku til að blogga um. Er þá ekki best að blogga bara um annað fólk?

Mig klígjar yfir þessu Jónínu-Ben-bréfa-link-máli. Ég er, grínlaust, með ælubragð í munninum yfir því hvernig siðmenntað fólk hagar sér í þessu. Ég sé það fyrir mér með sóðalegt glott, slefuna lekandi niður hökuna yfir þessum persónulegu bréfum hennar. Hvaðan kemur þessi ógeðslega þörf fyrir að velta sér upp úr skít nágrannans?
Hvað er það sem veldur því að almennt talið heilbrigt og gott fólk fær allt í einu eitthvað út úr því að liggja yfir þessum einkamálum? Nei, þetta er ógeðslegt.

Ég fæ á tilfinninguna að fólk gleymi því dálítið að það er ekta fólk þarna á bakvið þessi bréf. Manneskjur. Fólk sem sendi á milli sín bréf í þeirri trú að þau væru bara þeirra á milli. Leyfði sér að tala um persónuleg málefni, einkamál. Fólk, sem án efa hefur grátið og fundið mikið til yfir því að þessi persónulegu bréf urðu allt í einu opinber. Ég skil ekki hvaðan fólk tekur þá trú að bara af því að einhver annar setti þetta á netið sé bara allt í lagi að lesa það! Þetta er, eftir sem áður, einkamál. Er það vegna þess að um þjóðþekkta einstaklinga ræðir? Nei ég skil þetta ekki. Og finnst ógeðslegt að sjá fólk skemmta sér yfir þessu. Mér finnst það lýsa ósegjanlegri lágkúru.

Þá er predikun dagsins lokið.
Ekki mikið annað um að tala í bili... Ég er í fríi í dag og hafði fyrirhugað að þrífa og taka til. Ég ÆTLA að gera það. Bara ekki alveg strax.