Li|iana on Ice: október 2004

laugardagur, október 30, 2004 

EKKI skóli á mánudaginn! (30.10.'04)

Ég er komin að þeirri niðurstöðu að vel íhuguðu máli að ég sendi strákinn minn ekki í skólann á mánudaginn.

Ákvörðunina byggi ég mest á honum sjálfum, ég þekki hann það vel að ég veit að ef til þess kæmi að skólinn stæði í viku og svo ekki meir þá myndi það gera honum mun meira ógagn en gagn. Mér finnst það virkilega brútal af þeim sem þetta ákváðu að ætla að senda börnin (og kennarana) inn í skólana þegar málið stendur svona.

Fyrir það fyrsta þá verða börnin fyrir miklu róti ef allt springur svo í loft upp aftur og það er fyrir marga krakka, t.a.m. strákinn minn, mjög slæmt.

Í annan stað get ég ekki ímyndað mér að staðan sé sérstaklega þægileg fyrir kennarana sem nú mæta í vinnuna, allskostar óklárir á því hvernig þeir standa og hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þá. Ég er ekkert sérstaklega viss um að kennarinn sé að leggja sig fram við vinnuna sína þessa viku þegar hann hefur ekki hugmynd um fyrir hvað hann er að vinna! Er þá ekki rétt eins gott að halda barninu heima?

Í þriðja lagi þá setur þetta kennarana í ömurlega stöðu, ef þeir svo ákveða að fella þessa tillögu þá eru krakkarnir sendir aftur heim og hver er vondi karlinn? Jú hverjir aðrir en ÞEIR SJÁLFIR! Þeim finnst þeir sennilega í mörgum tilfellum knúnir til að samþykkja eitthvað sem þeir í raun eru afar ósáttir við, og hver vill láta hundfúlan og óánægðan kennara fara með eitt það mikilvægasta sem börnunum okkar er boðið upp á??

Ég sé nákvæmlega engan tilgang með þessari frestun á verkfallinu, ég hefði viljað sjá atkvæðagreiðsluna fara fram strax og skólann ekki hafinn fyrr en hlutirnir liggja klárir á borðinu. Mér finnst málið allt of óklárt og hljóðið í kennurum allt of neikvætt til að ég geti réttlætt það fyrir sjálfri mér að senda strákinn í skólann. Hvað skólaskylduna varðar þá blæs ég á það! Hún hefur nú ekki verið í hávegum höfð síðustu sex vikurnar hvort eð er, svo af hverju ætti ég að setja það fyrir mig? Jú, svo kann að fara að stráksi verði viku á eftir hinum börnunum í sex ára bekk en ég met hreinlega hans sálarheill hærra því hvort hann getur skrifað bókstafinn G! Aðstæðurnar hjá honum það sem af er skólaárinu eru hvort eð er á þá leið að þessi vika kemur ekki til með að skipta nokkru máli í stóra samhenginu!

Af mbl.is:

___________

"Tillagan var kynnt trúnaðarmönnum kennara í gær. Jóhanna Gestsdóttir, trúnaðarmaður kennara í Seljaskóla, segist svartsýn á að tillagan verði samþykkt í atkvæðagreiðslu. "Það er ansi þungt í mönnum hljóðið og það kæmi mér verulega á óvart ef tillagan verður samþykkt eins og hún er. Í sjálfu sér hefur orðið lítil breyting frá síðasta kjarasamningi. Mönnum finnst ekki nóg að gert varðandi launaliðinn," segir Jóhanna."

_______

Þetta er nota bene trúnaðarmaður kennaranna í skóla sonar míns og á meðan hljóðið er svona þá tek ég hreinlega ekki sénsinn! Á meðan möguleikinn á fellingu er fyrir hendi, hversu lítill sem hann kann að vera þá finnst mér það bara princip-mál hjá mér að standa föst á þessari skoðun minni!

Auðvitað ákveður fólk þetta fyrir sjálft sig, ég get t.d. vel skilið að foreldrar eldri barnanna vilji senda þau í skólann, þó ekki sé nema til að "ræna" nokkrum skólabókum með sér heim í því tilfelli að verkfall hefjist að nýju að viku liðinni. En í mínu tilfelli sé ég einfaldlega engin rök nógu sterk fyrir því að ég gangi út af stefnu minni.

Og hana nú!

mánudagur, október 11, 2004 

Dschingis Khan (11.10.'04)

Þetta elskulega lið eru mínir nýju bestu vinir! Það er alveg hreint með ólíkindum hvað þau koma mér í svakalega gott skap! Þetta eru mestu hallærislegheit síðustu aldar og það versta er að þau virðast ekki hafa vitað af því, heldur staðið í þeirri staðföstu trú að þau væru bara svakalega kúl! En sama er mér, ég er bara ánægð með að heimurinn (og þar með ég)fæ að njóta þeirra og fíflalegu tónlistarinnar þeirra nú og að eilífu!

RESPECT!
Ho ho ho ho ho, hey!

laugardagur, október 02, 2004 

Ekki hamingjusöm kona núna (2.10.'04)

Elsku besta Jónínan mín var nærri því að vera drepin í kvöld. Já, það liggur við að ég segi myrt, það munaði allavega ekki miklu að helvítis vanvitinn sem keyrði á hana hefði drepið hana! Garg, ég er svo reið að ég næ ekki upp í nefið á mér!

Hún lenti sem sagt í því á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar að hún var að fara yfir á grænu ljósi og þessi illilega vangefni aumingi, blautur bakvið eyrun, á sínu helvítis chocko-bíl þrusast bara yfir á rauðu og beint á hana! Framhlutinn af bílnum hennar er í algjöru drasli og þessi bíll verður aldrei nokkurn tímann ökuhæfur aftur! Ég hugsa til þess með hryllingi að hefði hún verið komin einum metra framar þá hefði hann dúndrast beint inn í bílstjórahliðina og sennilega slasað hana, ef ekki drepið! Höggið var greinilega töluvert því bílarnir voru í kássu!

Það versta við þennan fjanda er að helvítis strákdraslið hafði verið stoppað fokking 10 MÍNÚTUM ÁÐUR fyrir of hraðan akstur einhvers staðar í Hafnarfirðinum! Og skýringin sem þessi fæðingarhálfviti gaf á þessu var að hann hafi verið "enn svo pirraður út af því að hafa fengið sekt"


!!!!!! !!!! !!!!!!! !!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!!

Mér finnst grínlaust að svona fávita eigi að svipta ökuréttindum fyrir lífstíð (og ekki bara þessa fáránlegu réttarfarslegu lífstíð)! Ég skammast mín fyrir að segja það, en ég er eiginlega bara fúl að asninn fékk ekki einu sinni blóðnasir í árekstrinum við loftpúðann sinn!!!

Djöfulsins helvítis andskotans djöfull í heitasta andskotans helvíti!!!

föstudagur, október 01, 2004 

Hey hey hey! (1.10.'04)

Ég mundi allt í einu eftir svolitlu skemmtilegu sem mig langaði að deila með trúföstum lesendum mínum. Þetta er eiginlega svona "you had to be there" saga en mér er alveg sama, ég vil eiga hana skjalfesta í möskvum veraldarnetsins!

Ég var hjá Lindu systur minni um daginn, nokkuð sem ég sjálfu sér er ekki í frásögur færandi, því ég er þar meira og minna á hverjum degi! En fokk ðat, það kemur málinu lítið við, nema fyrir þær sakir að þegar ég var hjá henni þá hringdi síminn. Þar sem hún var yfir sig upptekin við að raða hringlaga pappaspjöldum með númerum á í stafrófsröð (nei hún er ekki ljóska, bókstafirnir eru á bakhliðinni) þá bað hún mig að vera svo elskuleg að svara í símann.
Ég segi náttúrulega ekki nei við uppáhalds systur mína og stökk því af stað í símann. Nú ætla ég að taka það fram að hún systir mín þekkir mikið að stórfurðulegu fólki sem á það sameiginlegt að vera ekki alveg húmorgerlasneytt, svo ég ákvað að bregða á það ráð að reyna að vera fyndin!

Ekki mín besta hugmynd, get ég játað, í ljósi þess sem á eftir kom.

Ég sem sagt þreif upp tólið og svaraði: "Lúsahús Lindu góðan dag, get ég aðstoðað?"
Það kom svolítið pat á manninn í símanum en hann ákvað greinilega að láta sem ekkert væri og fór að kynna fyrir mér á mjög áhugaverðan hátt geisladisk sem hann væri að reyna að selja til styrktar fólki með alvarlega geðsjúkdóma.
Ég var við það að pissa á mig af hlátri og gat bara engan veginn komið því upp úr mér að hann væri í fyrsta lagi ekki kominn í beint samband við lúsahús Lindu og í öðru lagi væri ég alls ekki umrædd Linda.
Reyndar hefði ég sennilega ekki komist að með þær upplýsingar, því hann var svo æðislega upptekinn af því að koma út úr sér romsunni sinni og lýsa disknum, sem átti víst að höfða rosalega mikið til "mín" (aka Lindu) þar sem ég væri nú orðin 37 ára og fílaði örugglega tónlist einhvers kalls sem einu sinni spilaði einhvern tímann eitt lag á munnhörpu með Ríó Tríó....
Ég var alveg að tapa mér þarna á endanum á línunni en gat bara ekki stunið upp einu hljóði, nema einstaka snökti sem datt út úr mér, því á þessum punkti var ég farin að skæla af hlátri sem ég var þó að reyna að bæla niður!
Steininn tók úr þegar blessaður drengurinn fór að lýsa fyrir mér aukalaginu á disknum sem að ég myndi "pottþétt fíla í drasl" vegna þess að það væri búlgarskt þjóðlag með einhverjum þjóðlagasöngvaraflokki sem væri búinn að vera afar vinsæll í Búlgaríu undanfarin 20 ár!!!!! !! !

Þá missti ég mig endanlega og fór að skrækja og góla í símann, ég hló svo gerræðislega að strákhvolpurinn hefur eflaust talið að ég væri einn af skjólstæðingum þessa félags sem hann var að reyna að selja diskinn fyrir!!
Ég gat með herkjum stunið upp úr mér afsökunarbeiðni og útskýrt fyrir honum að ég væri alls ekki hrifin af One-Hit-Onder munnhörpuleikara með Ríó Tríó, ég fílaði engan veginn búlgarska þjóðlagatónlist, ég væri ekki 37 ára og ég héti sko alls ekki Linda!! Aftur á móti styddi ég málstaðinn og vonaði að honum vegnaði betur í næstu símtölum! Svo lyppaðist ég niður á gólfið við símaborðið og pissaði í buxurnar!!
Linda, þessi elska, kom þá og svaraði í símann sinn og ég get svo svarið það að hún varð útfjólublá í framan af skömm yfir þessari stórklikkuðu systur sinni þegar hún komst að því hvernig í málinu lá!

Það endaði með því að hún afþakkaði pent þetta stórkostlega tilboð og afsakaði hegðun mína margfalt og reyndi á afar háttvísan máta að útskýra það að ég væri nú ekki með allar blaðsíðurnar mínar rétt límdar inn. Strákgreyið var alveg miður sín, hann var þarna búinn að eyða einhverjum 12 mínútum í að reyna að pranga þessu ógeði upp á mig - allt til einskis! Hann heimtaði víst að fá að tala við mig aftur (sennilega til að úthúða mér) en Linda fattaði plottið og kom í veg fyrir það með snöggu: "þakka þér kærlega fyrir, hafðu það gott".

Svo held ég að hún hafi pissað svolítið í sig líka, en hún vill ekki viðurkenna það. Við lágum í hláturskasti í góða stund áður en við náðum að púsla okkur saman aftur.

Svo vogaði hún Linda sér það að segja að hún ætlaði sko aldrei aftur að leyfa mér að svara í símann heima hjá sér! Að hugsa sér!
Ég benti henni allra náðarsamlegast á það að hún ætti heldur að þakka mér, nú gæti hún sko verið viss um að það það myndi aldrei nokkurn tímann hringja í hana símasölumaður framar!

 

Alveg hreint (1.10.'04)

Þetta er mín örvæntingarfulla tilraun til að finna eitthvað að gera við tölvuborðið svo ég þurfi nú örugglega ekki að standa upp! Reyndar sé ég fram á að ég þurfi að losa rassinn frá stólnum bráðum og hella upp á meira kaffi. En það er seinni tíma vandamál sem ég ætla ekki að takast á við fyrr en það sýnir sig.
Það er frí í skólanum í dag, allt í gúddí barasta með það, nema hvað það er rigning frá helvíti svo ég get ekki notað frídaginn í þessa helvítis útivist sem dagurinn er víst kallaður eftir (útivistardagurinn fyrir þá sem eru með lifrarkæfu í heila stað). Ég var alveg hreint búin að ákveða það að ég ætlaði í notalega göngutúra og stússast alveg fullt, en þess í stað þá gusast niður skýjapiss svo að maður verður bara latur og lásí! EKKI FAIR!
Þvottavélin er í gangi með 7. umferðina sína af þvottinum sem ég setti í hana á mánudaginn! Ég er með öðrum orðum ekki að standa mig neitt æðislega vel í húsmóðurstörfunum enda sé ég enga æðislega ástæðu til þess. Við erum hérna ein í kotinu, ég og karlinn og í rauninni þá er ég meira og minna ein vegna þess að hann er að "hjálpa" til við að koma upp baðherbergisskrípi heima hjá systur minni elskulegu. Hver er þá tilgangurinn?

Skrambans, nú er kaffið endanlega búið úr bollanum mínum og ég þarf að gera meira ef ég ætla að geta haft það notalegt!

Góðar stundir

 

Lambi sucks! (30.9.'04)

Ég hef komist að því að Lambi-klósettpappír er ekki pappírsins virði!
Ég átti aukapening í gær og ætlaði sko aldeilis að vera næs við bossann minn og keypti þess vegna þennan rokdýra snobbpappír. Svo beið ég spennt eftir næstu "skilum", því ég hlakkaði svo til að prófa dýrðina.
Svo kemur morgunskitan á sínum venjulega tíma í morgun og hvað haldið þið? Lambi er bara CRAP!!! Þetta er svo stútfullt af einhverjum mýkingarefnum að það er barasta ALLS ENGIN raka/skítdrægni í þessu! Ég get svo svarið það að ég var langt komin með að stífla helvítis dolluna, svo mikið þurfti ég að nota!
Bið ég þá frekar um krumpaðan dagblaðapappír!

Svo fékk ég reyndar ansi góða ábendingu frá góðri konu, hún hvatti mig til að fara bara með pappírinn (eftir notkun) út í búð og kvarta! 0
Ætli það hefði ekki mælst vel fyrir?