Li|iana on Ice: brrrr,,,, (14.9.'04)

« Home | Föstudagur til fjár (10.9.'04) » | HRMPH! (9.9.'04) » | Stöööð! (2.9.'04) » | Allt eitt stórt samsæri (30.8.'04) » | Sunnudagur (29.8.'04) » | Skólalíf (26.8.'04) » | Fyrsti skóladagur (23.8.'04) » | Skólalíf (16.8.'04) » | Sveitt og brennd (13.8.'04) » | Jjibbíkæjeij moððefokker! (5.8.'04) » 

þriðjudagur, september 14, 2004 

brrrr,,,, (14.9.'04)

Það er hrollur í mér þrátt fyrir góða veðrið. Kannski það sé vegna þess að það er kalt? Jamm, það er ískalt úti. En ég vil frekar fá svona veður en helvítis rigningarmadnessið sem er búið að vera síðustu daga/vikur.
Helgin gekk nokkuð vel bara, það var svosem ekkert rosalegt havarí í gangi hjá mér en mér tókst þó að fara út að tjútta bæði föstudags- og laugardagskvöld og kalla ég það gott. Ég var reyndar stungin af af bílstjóranum mínum á laugardagskvöldið, því hann ákvað að hrynja í það (heldur verklega) og var því ekki ökuhæfur. En það splittar nú ekki öllu, ég fékk pening frá honum til að henda í leigubílstjórann sem rúllaði mér svo heim fyrir rest.

Þessi leigubílstjóri var nú ekki alveg að ganga á öllum, hann var stórfurðulegur ef þið viljið mitt álit... Leigubílstjórar eiga það til að tala um alla heima og geima óháð því hvort maður svarar þeim eða ekki, og þetta var svo sannarlega einn af þeim! Hann malaði og malaði um umferðina og gatnakerfið og nýju brýrnar út um allt og hvar þyrftu nú að koma ný gatnamót og hvar væru slæmar holur og hvar hann kviði fyrir að keyra í vetur vegna hálku og hvað ljósin hér eða þar eru nú leiðinlega skipulögð og hvernig umferðarmenningin væru nú hérna og já, í rauninni bara velflest það sem getur ært óstöðugan, nei, stöðugan (!!) á góðum degi, hvað þá klukkan hálffjögur að morgni sunnudags!
Ég var svo gáfuð að mér fannst ég verða að leggja orð í belg, mestmegnis til að þagga niður í honum í smástund. Svo ég fór að tjá mig um þessa helvítis unglingsstráka sem ekki ættu einu sinni að fá leyfi til að stýra Playstation stýripinnunum sínum, hvað þá meira! Ég tjáði þessum ágæta manni reiði mína í garð þeirra sem stunduðu glannaakstur um allar trissur og legðu líf mitt og limi í hættu með stórhættulegum framúrakstri og fleira í þeim dúr. Yady-yady-yady, þið skiljið.
Þið verðið að skilja, mig langaði mun frekar að hlusta á mína eigin hljómfögru rödd en malið í þessum 174 ára atvinnubílstjóra...
Haldið þið ekki að þessi perla hrynji út úr blessuðum karlinum:
"Já, þetta er nú bara allt konunum að kenna."
Ég var svolitla stund að kveikja á því sem hann hafði sagt, en sama hvað ég reyndi þá fékk ég ekki botninn í þessa staðhæfingu!
"Ég var nú að tala um unglingsstráka"
sagði ég, svona til að reyna að leiðrétta þennan misskilning. Nei nei, kemur þá ekki á daginn að hann hafði ekki misskilið neitt:
"Já, en eru það ekki kerlingarnar sem ala þetta upp?"

!!!

Ég er nú langt frá því sem getur talist góð og gild rauðsokka, það fer yfirleitt lítið í taugakerfið hjá mér að einhver dissi kellingar, en þetta fannst mér svo úti á grasi að ég vissi varla hvað ég hét lengur!
Ég var í góða stund að skafa hökuna upp úr útúrældri gúmmímottunni í gólfinu en náði svo sönsum að einhverju leiti og hreytti í hann:
"Jahá! Hvað með barnaníðinga og morðingja og nauðgara og ræningja og dópista og hryðjuverkamenn og sjálfstæðisfólk, ætlarðu ekki bara að segja að þetta pakk sé allt kolbrjáluðum kerlingum að kenna af því að þær ólu það upp svona??!!??"
-Hann var nú ekki alveg til í að gúddera þessa kenningu og baðst afsökunar og grjóthélt síðan kjafti alla leiðina heim.

Hann var nú ekki meiri kvenhatari en svo að hann gaf mér afslátt af fargjaldinu, sennilega bara sem friðþægingu fyrir að hafa komið mér í svona rasandi ástand rétt fyrir svefninn...