Li|iana on Ice: Vinnutremmi

« Home | Hæ hó » | Afsökunarpóstur » | Datt mér ekki í hug! » | Jólin að koma!! » | Ælt á presta! » | Fermingakjaftæði! » | Kaffipæling » | Stytting framhaldsskólanáms » | Einu sinni voru úlfur, ljón og önd að tala saman o... » | Erfitt... » 

mánudagur, júní 19, 2006 

Vinnutremmi

Alveg er þetta nú merkilegt.
Ég var búin að vinna eins og vitleysingur og hlakkaði svo skelfing mikið til að komast í pínulítið frí, tæma hugann og slaka á. Svo kemur fríið, jú allt voða næs og þægilegt - en ef ég hef ekki stanslaust eitthvað að gera þá bara kemst ekki annað að í kollinum á mér en hvernig þeim reiði nú af í vinnunni án mín... Ferlegt að vera svona óskaplega ómissandi!
Ég er nú alveg viss um að þetta gengur fínt hjá þeim... en fullkomnunarklikkspíran ég sé ekki fyrir mér að neitt sé almennilega gert nema ég hafi puttana í því sjálf. Ég er með sjúka mynd í höfðinu af ástandinu á heljarþröm þegar ég sný aftur (á miðvikudaginn, nb! Það er ekki eins og við séum að tala um mánaðarfrí!) og ég þurfi að liggja yfir klikkeríi fram á rauða nótt í heila viku til að laga allt sem úrskeiðis hefur farið. Ég veit vel að þetta verður andskotann ekkert tilfellið en svona getur heilinn nú verið furðulegur, það er svo erfitt að slíta sig lausan.

Ég er búin að lesa tvær bækur síðan ég kom á föstudagskvöldið, verð að finna mér eitthvað meira ef ég á ekki að verða snargeggjuð barasta. Nú er það svo að foreldrar mínir eru einir öflugustu bókasafnarar sem ég veit um, svo að við fyrstu umhugsun skyldi maður ætla að það væri ekki miklum vandkvæðum bundið að finna sér skruddu að líta í. En þegar ég renni augunum yfir bókahillurnar og sé titla á borð við „Undirheimar íslenskra stjórnmála“, „Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur“, „Árbók hins íslenska fornleifafélags“ og „Æviskrár samtíðarmanna“ (þjú bindi, hvert um sig 700 blaðsíður) þá fallast mér oggulítið hendur.
Ég veit að gimsteinarnir eru faldir í þessum haugum af óáhugaverðum titlum, en magnið af bókum er þvílíkt að mann syfjar dálítið við tilhugsunina um að hefja leitina. Ég geri ráð fyrir að enda í góðri sagnfræðibók fyrir rest, nóg er af þeim...

Snubbur er á leikjanámskeiði, í dag átti að spila fótbolta og fara í einhverja fleiri leiki. Hann átti óneitanlega dálítið erfitt með að snúa sér á lappir í morgun, við höfum ekki beint verið að fara að sofa á guðlegum tíma um helgina... á laugardagskvöldið fékk hann að vaka til hálftvö yfir Stellu í framboði. Svo hefur verið kúrt og kelað til hádegis, svo það er kannski ekki skrýtið að greyið hafi verið syfjað. Alveg er maður nú algjörlega óhæfur uppalandi!

En jamm, ég ætla að koma mér fyrir í sófanum með skruddu í fangi. Ég held á þessum tímapunkti að valið standi milli „Íslensk Skip“ (fjögur bindi) eða „Gestapó í Þrándheimi“. Held að síðari titillinn verði sá sem hljóti náð fyrir augum mínum að þessu sinni. Íslensk skip heilla mig lítið en Gestapó er spennó.

Lifið heil!