Li|iana on Ice: Væmni hf

« Home | Jamm já » | Brupps » | Havin' me some fun tonite! » | Djöfulsins fikt! » | Myndafærsla » | Block? » | Í ögn betra skapi en síðast... » | Fólk er óþolandi! » | Tony veltir fyrir sér... » | Dauði og djöfull! » 

föstudagur, júlí 22, 2005 

Væmni hf

Ef þú þarft ekki mikið til að finna til velgju yfir væmni, þá skaltu bara fara og skoða eitthvað annað núna, ok?


Kolbrún er hjá okkur um þessar mundir, hana vantaði tímabundinn samastað, og hvað gerir maður ekki fyrir familíuna?
Við erum ekki með neitt aukaherbergi hér, þannig að hún fær að brúka herbergið hans Atla Þorgeirs og hann - jú hann er bara uppí hjá okkur á nóttunni. Voða næs og kósí allt saman. Það er alveg óskaplega hlýlegt að koma inn á kvöldin til að fara að sofa og þessi unglingur (að því er mér finnst) liggur í rúminu miðju og breiðir úr sér til allra átta. Til að komast sjálfur fyrir í rúminu (sem er nota bene 193*203 cm) þá þarf fyrst að standa í stóraðgerðum til að koma barninu fyrir almennilega í miðjunni svo við getum rúllað okkar rössum uppí líka.
Það er með ólíkindum hvað það virðast allt í einu vaxa á hann margir útlimir akkúrat á þessari stundu! Það er sama hvað maður færir til af þessu dóti, alltaf er hendi þar og fótleggur þar sem er enn fyrir! En þetta hefst nú yfirleitt allt að lokum og við getum komið okkur fyrir. Þá tekur nú ekki betra við.
Hann elskulegasti sonur minn er nefnilega þeirri náttúru gæddur að hann er svo að segja aldrei kyrr, ekki einu sinni í svefni! Hann talar og talar allan liðlangan daginn og það tekur heldur engan endi þótt hann sé sofnaður, öðru nær! Í gærkvöldi fengum við t.d. að heyra heldur óskiljanlega sögu um einhvern stóran strák á mótorhjóli með slöngu í hendinni og tvo japanska varðhunda - eða það held ég í það minnsta að hafi verið inntakið í frásögninni! Það er gólað einhver ósköp og barist um og slegist og síðan hleypur hann í burtu á ógnarhraða Á BAKINU Á MÉR! Ég fann litlar lappir trampa á mér af fullum krafti og ég hélt um stund að ég myndi fá hryggsúluna upp um munninn á mér. Til allrar hamingju slapp það nú, og hún hélt sér nokkurn veginn á sínum stað, en hugsanlega er hún frekar bláleit í dag...

Það tekur með öðrum orðum örlítið lengri tíma að sofna þessa dagana, og þeim hamagangi, sem maður er öllu vanari að eigi sér stað í rúminu, hefur verið skipt út fyrir svona leikfimiæfingar. En það merkilega við allt þetta er það að þegar hann tekur sér pásu í látunum og róast niður milli draumtímabila þá sný ég mér við og horfi á hann, og hann vefur öllum þessum útlimum sínum utan um mig og kjassar mig alla eins og malandi kettlingur. Ég góni á þetta undraverk mitt og fyllist tilfinningu sem er svo yfirþyrmandi að um stund held ég að ég ætli bara að fara að skæla. Að horfa á litla, fullkomna nebbann hans, á löngu augnahárin og mjúkar kinnarnar vekur einhverns konar verk djúpt niðri í brjóstholinu á mér, næstum því aftur í baki (þó ekki í verkjandi hryggnum) og ég þarf að draga andann djúpt og bara njóta þess að elska þetta kraftaverk. Alltaf skal maður svo hugsa; á morgun ætla ég ekkert að tuða, á morgun verða engar skammir, á morgun ætla ég bara að knúsa þig allan daginn!

Svo kemur dagurinn og hann tætir myndaalbúm úr hillunum og skilur eftir dreifð eins og rekavið um alla íbúð, hann æðir í skápana og hendir kexi á gólfið og labbar yfir það, hann þverneitar að þvo sér um hendurnar, kemur inn með grasmaðka og hrellir mig, laumast með vatnsbyssu inn í svefnerbergi og bleytir sængina mína, suðar um ís og nammi, gerir mig gráhærða!! Og ég berst um á hæl og hnakka við að muna eftir því að í kvöld fæ ég kannski aftur svona knús og áminningu um þessa yndislegu tilfinningu og ég hlakka til!

Mér finnst nú væmni yfirleitt frekar velgjukennd en þetta var bara svo sæt saga

Skrifa ummæli