Li|iana on Ice: Myndafærsla

« Home | Block? » | Í ögn betra skapi en síðast... » | Fólk er óþolandi! » | Tony veltir fyrir sér... » | Dauði og djöfull! » | Komið að því » | » | Detti mér allar dauðar... » | Já eruð þið ekki stolt af mér? » | Síðbúið kanínusjálfsmorð » 

fimmtudagur, júlí 14, 2005 

Myndafærsla

Jæja gott fólk, ég settist loksins niður og ákvað að koma með almennilega færslu um hvað hefur gengið á hjá mér undanfarið. Vandamálið var bara að ég átti erfitt með að sortera það fyrir sjálfri mér, hvað þá byrja að skrifa um það! Svo ég datt í það að skoða myndirnar mínar til að sjá hvað gerðist hvenær og kannski rifja upp eitthvað skemmtilegt til að tala um. Og þá fékk ég þá ofursnjöllu hugmynd að deila bara með ykkur úrvali af myndum og láta vita jafnóðum hvað er í gangi á hverri mynd. Sniðugt, ekki satt? Ok byrjum þá!

Fyrsta myndin er af Atla Þorgeiri í Fífuselinu rétt áður en við fluttum. Hann fékk að fara með stjörnuljós út á svalirnar (í glampandi sólskini nota bene) og kveðja þannig heimilið áður en við fluttum. Þetta var í lok apríl.


Hún elskulegasta Sæunnin mín giftist honum Begga sínum þann 14. maí. Ég fékk þann heiður að sjá um hárið hennar og ég held að mér hafi bara tekist nokkuð vel upp með það þótt ég segi sjálf frá. Kolbrún var hirðmeiköppdama og útkoman sést á þessari mynd. Þetta gekk allt saman óskaplega fallega fyrir sig, brúðhjónin mundu bæði eftir að segja "já" á réttum stöðum, Dalla (systir brúðarinnar), Linda (systir brúðarinnar og mín) og ég sjálf gauluðum eitthvað undir athöfninni og í veislunni og ég held að við höfum komist nokkuð skammlaust frá því bara. Ég held að hún Sæunn sé fegursta brúður sem Ísland hefur alið!


Þriðja myndin er af mér. Jú þetta er víst ég! Mér fannst þetta svo skondin mynd, af því að Atli Þorgeir tók hana af mér á Hvítasunnudag (15.maí) og á henni sést nokkuð greinilega hvernig hann sér mömmu sína víst allt of oft: hangandi í tölvunni! Þetta er semsagt silfurmolinn sem hann Tony gaf mér í jólagjöf núna síðast og ef vel er að gáð þá má sjá glitta í hausinn á mér þarna upp fyrir hann!


Jæja, mynd númer fjögur. Þetta erum nokkar yndislegar gellur sem komu í heimsókn til mín að kvöldi hvítasunnudags og þömbuðu hér ýmislegt áfengt og skemmtu sér með mér áður en við héldum svo í bæinn á eitthvað rall. *knús* á ykkur beibs! (Elín, Árný og Ragga semsagt)


Jæja júní kom. Og þeir sem voru viðstaddir júní á Íslandi vita að júní var ósköp indæll mánuður veðurfarslega séð. Ég fór í sumarbústað rétt hjá Hveragerði ásamt nokkrum vel völdum fjölskyldumeðlimum og við Kolbrún systir tókum m.a. nett myndaflipp. Meðfylgjandi mynd sýnir dæmigerða grettu. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa seríu, nema hvað ég ætla að segja ykkur að ég þurfti að skipta um nærbuxur þegar myndatökunni var lokið. Jamm.Daginn áður en ég kom heim úr bústaðnum afrekaði Tony það að klessukeyra hana Júlíu okkar (bílinn). Ég er nú ekki með mynd af því en mér fannst ég mega til með að skjóta því að að hann gerði það! Grrrrr... Reyndar er búið að gera við Júlíu núna með ærnum tilkostnaði og hún er við hestaheilsu, en þetta er náttúrulega nokkuð sem verður að taka með í svona viðburðaupptalningu, er það ekki?

Daginn eftir að ég kom heim úr bústaðnum, sem var 17. júní, kom tengdapabbi í heimsókn til okkar í allt of stutta helgarferð. Hann náði að festa okkur Krummapakkið á þessa mynd sem hér fylgir. Það var frábært veður allan tímann sem hann var hjá okkur og við gerðum helling af okkur. Það hefði reyndar verið skemmtilegra að hafa hann svolítið lengur, en við stefnum bara á það næst í staðinn.


Eins og ég sagði þá gerðum við ýmislegt á meðan kallinn var hérna, en m.a. fórum við á víkingahátíð í Hafnarfirði. Þar sáum við þennan snarklikkaða unga mann troða eldi í sig - og ofan í buxurnar sínar og fleira skemmtilegt reyndar.


Hérna er svo höfðinginn sjálfur, myndin er tekin við Gullfoss, hvert þeir fóru Tony og hann. Hæ hæ tengdó!


Jahá! Þá er sko komið að stórviðburði sumarsins! -Allavega héldum við að það yrði stórviðburður sumarsins, en það kom á daginn að þetta var bara flopp. Við fórum með Atla Þorgeir í Smáralindina þ. 2. júlí til að sjá átrúnaðargoðin hans; norsku apakettina í Wig Wam! Ég var alvarlega farin að sjá eftir því á tímabili að hafa ekki haft með aukasett af buxum fyrir drenginn, því ég var hrædd um að hann myndi pissa í sig af spenningi! Hann var búinn að mála sig allan og skreyta í glysrokkarastíl og var alveg að missa sig þessi elska. Í Smáralindina mættu eitthvað rúmlega 3000 manns til að berja glimmergaurana augum og það átti eftir að reynast örlagaríkt. Atli týndist nefnilega í þvögunni og var pikkaður upp af einhverjum öryggisverði sem parkeraði honum svo bara niðri á þjónustuborði, svo ljósið mitt litla fékk aldrei að sjá svo mikið sem glimmerkorn af goðunum sínum! Mig langaði að gráta þegar allt var afstaðið yfir því hvernig þetta fór allt saman, en drengurinn bar sig vel og sagði bara: "Mér líkar ekkert við svona mikinn hávaða hvort eð er!" Hann var samt dúndurfúll, það veit ég! Og þess vegna ætla ég að reyna mitt besta til að bæta honum þetta upp með að fara með hann á alvöru Wig Wam "ungdómstónleika" sem mér skilst að verði haldnir hér í ágúst! ROCK ON!


Hérna eru þeir svo, dáðadrengirnir sjálfir. Ekki veit ég hvurn fjárann maður var að reyna að baksa þetta með myndavélina þarna, það sást ekkert nema hausar á liðinu sem fyllti Vetrargarðinn svo langt sem augað eygði! En það tókst þó að ná svona smá (ó)mynd. Rauða klessan fyrir miðri mynd er Glam, söngvari sveitarinnar.


Jæja þá. Um kvöldið fór ég svo með góðum hópi á Gauk á Stöng á alvöru Wig Wam tónleika! Júhú! Ég var búin að hlakka til minnst eins mikið og drengurinn minn að sjá þá (eins og sést víst í eldri færslu hér á síðunni) og skundaði því glöð í bragði á blessaða tónleikana. Það fór samt ekki betur en svo að einhver fjandans villimaður skallaði mig í nefið af því að honum þótti ég ekki nógu liðleg við að hleypa honum fram fyrir mig í þvögunni sem myndaðist við sviðið! Sveitin var samt alveg frábær og ég skemmti mér þrusuvel þetta kvöld ef þessi skalli er ekki talinn með! Á myndinni sem fylgir má nokkurn veginn (með slatta af ímyndunarafli) greina hvernig ég var útlítandi eftir umræddan skalla. Ég fékk ágætasta mar á nebbann, en slapp samt að ég held furðu vel miðað við hvað mér þótti höggið hart. Passaðu þig villimaður, ég veit hvernig þú lítur út og ef ég sé þig aftur þá skaltu fá að finna fyrir einhverju örlítið meiru en hártogi!! GARGH!


Eftir þetta ævintýri allt saman var haldið í Búðardalinn til settsins. Við Atli vorum þar í viku í góðu yfirlæti og létum okkur bara líða vel á hótel mömmu/ömmu. Stráksi plataði náttúrulega afa sinn til að gera allan fjárann fyrir sig, en þessi öðlingsmaður sem ég á fyrir föður er þeim kostum gæddur að geta ómögulega sagt nei við þetta barn mitt. En það merkilegasta sem pabbi gerði fyrir molann minn var að hann gerði sér lítið fyrir og kenndi honum að hjóla! Þessi mynd er tekin sömu mínútuna og strákurinn hjólaði einn og óstuddur í fyrsta skiptið, og þykir mér það nokkuð merkilegt að eiga mynd af því afreki! Þetta er 5. júlí.


Nokkrum dögum síðar skelltum við okkur á Leifshátíð í Haukadal í Dölum. Þetta er árleg hátíð og ég get með sóma sagt að ég hafi mætt á hana í hvert einasta skipti af þeim 5 sem hún hefur nú verið haldin! Þetta er alltaf alveg hreint óskaplega gaman og ég held að ég fari ekkert að hætta að mæta á hana úr þessu. Heyrið þið það, Eiríksstaðanefnd! Þið losnið aldrei við mig! Múhahahahaaaa! Myndin er af Atla á laugardeginum, eitthvað að sniglast í kringum víkingana.


Á þessari hátíð hittir maður alltaf fullt af skemmtilegu fólki, en ég verð samt að segja að þessi gaur er einn sá athyglisverðasti sem ég hef dottið um á henni. Þetta er Frakki að nafni Gilles, sem á það að sinni helstu ástríðu í lífinu að heimsækja fornar söguslóðir. Hann var búið að dreyma um að koma til Íslands lengi vel og loksins látið verða af því, og var svo heppinn að lenda í Haukadalnum akkúrat sömu helgi og hátíðin var haldin. Ég sýndi náttúrulega af mér alkunna íslenska gestrisni og hellti ótæpilega af áfengi í náungann, nokkuð sem ég held ekki að hann hafi verið neitt óskaplega ósáttur við svosem...


Hérna erum við svo á hátíðinni, Unnur, Sandra og ég. Ég held ekki að við höfum verið orðnar neitt yfirmáta ölvaðar þegar þessi mynd er tekin, en það kom síðar, bílíf jú mí!


Erna og Jónína alltaf sætar! Þær fengu m.a.s. að fara upp á svið og syngja með Ragga Bjarna *andköf* og eru þær rétt nýstignar niður af sviðinu þegar þessi mynd er tekin. Mikið er ég ánægð að eiga vinkonur sem hafa sungið með Ragga Bjarna! I'm starstruck! *meiri andköf og svo fliss*


Tony var þarna náttúrulega líka, ég held að hann skemmti sér yfirleitt betur en ég á þessari hátíð, þótt ótrúlegt megi virðast. Hann er svo fjári mannblendinn þessi elska og á svo létt með að næla í fólk til að spjalla við... Reyndar var eiginlega engin spurning um að hann yrði að tala við þennan ágæta mann, því þeir eru víst landar. -Já eða það héldum við allavega til að byrja með. Hann heitir Andy þessi gaur og hefur búið í Noregi í töttögöfemmár og þeir skemmtu sér konunglega saman við að syngja norsk ættjarðarlög og drekka Jack Daniels og sitthvað fleira misgirnilegt! *æl* Konan hans, hún Monika er líka þrælskemmtileg skvísa og rabbaði ég margt merkilegt við hana á meðan þeir voru einhvers staðar að væta kverkarnar í söngvatni og syngja... sem var eiginlega allt kvöldið barasta!


Eitthvert þurfti nú allt þetta söngvatn að fara. Og það þekkja þeir sem söngvatn hafa bragðað að oft vill svo fara að söngvatnið virðist allt safnast fyrir inni í höfðinu á manni eða koma sér illa fyrir í maganum, nokkuð sem maður ótrúlegt nokk finnur yfirleitt ekki fyrir fyrr en daginn eftir að það er innbyrt. Og það var að sjálfsögðu tilfellið með hann Tony minn. Þessi mynd er tekin af honum á sunnudagskvöldið, eftir að hann hafði legið í skjálftarykkjum allan daginn:


Atli hafði hins vegar ekkert söngvatn fengið, bara kókómjólk og Sprite Zero og hann var því súpersprækur og fann ekkert fyrir neinum skjálftarykkjum af neinu tagi, nema kannski einna helst rokkrykkjum af bestu gerð. Hann er nú búinn að ákveða það að verða rokkstjarna og er strax byrjaður að æfa töffarataktana eins og sést á þessari mynd.


Jæja þá erum við komin inn í nútímann barasta, ekkert meira hef ég til að sýna ykkur í bili. Nú hafið þið fengið að frétta upp og ofan af afrekum okkar lúðulakanna síðustu mánuði og þá get ég kannski farið að blogga í friði um daglega lífið án þess að vera alltaf með samviskubit yfir að hafa skilið svona stóran part útundan.

Sjáumst!

flott færsla meira af þessu takk

Loksins almennileg færsla!! Eitthvað annað en ég, sem blogga bara einstaka sinnum "andskotans" eða "djöfulsins"..
Mjög skemmtilegt!

Skrifa ummæli