Li|iana on Ice: Komið að því

« Home | » | Detti mér allar dauðar... » | Já eruð þið ekki stolt af mér? » | Síðbúið kanínusjálfsmorð » | Trúarbrögð og lakkrísát » | Hvernig dey ég? » | Kósíheit í Búðardal » | Langt síðan síðast » | Brúður frá helvíti! » | Kanínusjálfsmorð dagsins » 

þriðjudagur, maí 31, 2005 

Komið að því

Ég var víst búin að lofa mínum dyggu áhangendum að fara að koma með færslu. Hef bara ekki haft svo mikið að segja upp á síðkastið, er búin að vera að flytja og svona og það hefur alltaf haft frekar slæm áhrif á sköpunargáfuna... Núna er ég hins vegar óðum að venjast nýju húsakynnunum og allt svona smátt og smátt að komast í skárra horf.

Það er alveg heill djöfuls hellingur búinn að vera í gangi síðan ég skrifaði síðast, og það á eflaust eftir að taka mig mikinn tíma og fyrirhöfn að lista það allt saman upp. Ég ætla hins vegar ekki að gera það núna strax, ætla að demba því inn í smáskömmtum. Ég er búin að vera fjári dugleg við að fara á sneplana undanfarið, það virðist meira og minna vera eitthvað í gangi um hverja helgi og óneitanlega þá þykir mér erfitt að segja nei þegar hugmynd um bjór í góðra vina hópi er borin á borð. En fyrir utan einstaka blaut atvik fyrir utan ónefndar fornbókaverslanir borgarinnar þá hef ég ekki gert neitt stórkostlegt af mér. Já þið verðið bara að gera upp við sjálf ykkur hvort þið viljið trúa því eða ekki!

Jú ég játa að ég átti í heitu, orðlausu daðursambandi við ungan stúdent í leigubílaröðinni um síðustu helgi! Mjög einkennilegt atvik!
Ég fann það þar sem ég stóð þarna í röðinni að það var verið að horfa stíft á mig og hver ætli það hafi verið nema náunginn fyrir aftan mig? Mín varð að sjálfsögðu svaka ánægð með sjálfa sig, hugsaði "I've still got it!" og var alveg að springa úr monti yfir að mér væri enn rétt auka augnatillit. Svo þóttist ég bara ekkert vita af þessu meira en í hvert sinn sem ég leit við mætti mér þetta stingandi heita augnaráð og ég var heldur en ekki komin með sjálfsálitið í afar ákjósanlega stöðu. Ég gerði mitt allra besta til að vera sæt og vera með "lúkkið", glotta örlítið út í annað (af því að bros eru sexí) og eftir því sem röðin mjakaðist framar tók ég sífellt meira eftir þessu augnaráði og skemmtilegu spennu.
Jæja svo kemur loksins að því að það eru bara þrjár fyllibyttur fyrir framan mig í röðinni og ég sé sem sagt fram á að vera sest niður í þægilega heitan leigubíl eftir augnablik... þá pikkar þessi líka nammi sæti gaur í upphandlegginn á mér og ég lít við...augu okkar mætast og brosið fæðist á vörum mínum...

...þá byrjar hann allt í einu að sleikja á sér þumalinn!!

Ok... ég meina allt í lagi með yngri gaura, þeir geta alveg verið heilmikið namminamm, en var ekki fullmikið af hinu góða að fara að sjúga á sér þumalinn? Sko hallóóó þú ert stúdent! Kominn tími til að sleppa öryggisteppinu og hætta sér út í heim fullorðna fólksins!

Eitthvað hef ég orðið furðuleg á svipinn því hann brosti á móti mér, opinberaði fullkominn tanngarð sinn fyrir mér og rétti svo fram þumalinn SEM HANN HAFÐI VERIÐ AÐ SLEIKJA og strauk honum yfir ennið á mér!!

Sko allt í lagi, ég er jafn kinky og næsta manneskja svosem, ég get alls ekkert neitað því, en þarna var hann bara búinn að tapa þræðinum! Þá hóf hann loks upp raust sína (verð að játa að hún passaði ekki við restina af pakkanum, það var bókstaflega eins og hann hefði nælt sér í stúdentshúfu stóra bróður síns, því ég get svo svarið það að hann getur varla hafa verið sloppinn úr mútum fyrir löngu síðan) og segir:

"Þú varst með öskurönd á enninu!"

Ég sá lífshlaup mitt renna hjá fyrir augum mínum í því að ég áttaði mig á því að þessar augngotur og spenna sem ég hafði verið að fíla höfðu ekki verið af rótum hrifningar runnar, heldur hafði strákgreyið bara verið að flissa að mér í hljóði!
Nú ætla ég annað hvort að hætta að reykja, eða læra að reykja án þess að þvæla ösku í andlitið á mér eða hreinlega gera það sem væri sjálfsagt farsælast: taka upp gamla góða brúna pappírspokann og smeygja honum þar sem hann á heima - á höfuðið á mér!