Li|iana on Ice: Glöð núna

« Home | Aukaverkanir flensunnar » | Erm... gott að vita? » | Ég komst að því í gær hvað ég er ótrúlega heppin, ... » | Ljóð » | Ögh » | Djöh » | Photoshop er GAMAN » | Hjartað alveg að springa... » | Hjálpar að hafa unnið á bar... » | Fífl! » 

fimmtudagur, febrúar 24, 2005 

Glöð núna

Já ég er glöð, og það er þónokkuð merkilegt fyrir mig. Ég er búin að vera svo veik og svo hrundi stráksi minn í sömu veikindin og varð öllu verri. Til merkis um hvað hann var sjúkur í gær þá horfði hann á útsendingar frá Alþingi í u.þ.b. tvo klukkutíma! Hann afþakkaði að ég læsi fyrir sig, hann vildi ekki popp og kók og var ekki einu sinni til í að maula súkkulaði!! Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var hræðilega hrædd! Enda vita þeir kannski sem hafa hitt son minn að þetta er ekki eðlilegt fyrir hann, síður en svo.
Jæja, á læknavaktina var brunað í gærkveldi, mér var alveg hætt að lítast á blikuna, enda barnið með nærri 40 stiga hita og hreinlega gat ekki hreyft sig. Við vorum einstaklega heppin þar og fengum (ótrúlegt en satt) mjög almennilegan lækni sem skoðaði hann svakalega vel og kvað svo upp dóminn: gutti er sem sagt með lungnabólgu, eyrnabólgu og herpes simplex! Ámm, þið getið svona kannski gert ykkur í hugarlund að ég var ekkert yfir mig hamingjusöm yfir þessu. Litli molinn minn, sem hefur varla orðið lasinn í 5 ár bara kominn með hrúgu af drasli!
Við vorum send heim með sýklalyf í poka og þau fyrirmæli að fylgjast gaumgæfilega með hitanum og hringja strax á barnaspítalann ef hann færi ekki að lækka fljótlega eftir að ég byrjaði að neyða í strákinn dópinu. Doksi hafði muldrað eitthvað um innlögn í því tilfelli og eins og gefur að skilja fór mömmuhjartað mitt í svolítinn mínus við þau orð...
Mér tókst að smygla lyfinu í drenginn, blandað við Hrísmjólk og svo var farið að bíða, með krossaða fingur. Stráksa tókst að sofna um klukkan 10 en vaknaði svo aftur ekki mjög löngu seinna, í köldukasti, búinn að æla út allt rúmið mitt og var svo logandi heitur að ef ég hefði ekki vitað betur þá hefði mér helst dottið í hug að hann hefði verið að baða sig í Deildartunguhver!
Hann var drifinn í stutta sturtu til að spúla af mestu ólyktina og svo pakkað í rúmið aftur, með hitapoka með köldu vatni sér við hlið (hans eigin hugmynd, sko til!). Svo lognaðist hann út af aftur og ég var algerlega á nálum í alla nótt, var töltandi inn til hans á hálftíma fresti til að athuga hitann. Hann hélst hár til klukkan 5 en virtist þá loksins losa tökin. Þá fyrst andaði ég djúpt og slakaði á, fór inn og svaf til 10, þegar hann vakti mig brosandi og bað um morgunmat!

Það var svona varla að ég tryði því hvað hann var brattur, en hann virðist núna nokkurn veginn eins og hann á að sér að vera, fyrir utan það að hann er jú með svolítinn hita ennþá og hóstar illa - en hann vildi borða og bað því næst um að fá að horfa á DVD diskinn sem ég fékk lánaðan handa honum í gær ef ske kynni að hann myndi hressast.

Þannig að já, ég er glöð núna. Það er alveg hræðilegt hvað maður getur orðið hjálparlaus, hræddur og óhamingjusamur að horfa á barnið sitt kveljast svona og hafa svo takmarkað vald yfir því að láta því líða betur. Það er hreint og beint hryllilegt, svo nú vona ég að hann nái góðum bata fljótt og verði svo ekki veikur í önnur fimm ár!

Hér fylgir svo mynd af snáðanum sem sýnir vel hvernig hann var allan gærdaginn:

Æji snúðurinn ég vona að hann sé að hressast Það er ómögulegt að vera svona lasinn. *knús* til þín það er svo erfitt að horfa á börnin sín veik. Hittumst vonandi í næsta saumó....

Skrifa ummæli