Li|iana on Ice: Aukaverkanir flensunnar

« Home | Erm... gott að vita? » | Ég komst að því í gær hvað ég er ótrúlega heppin, ... » | Ljóð » | Ögh » | Djöh » | Photoshop er GAMAN » | Hjartað alveg að springa... » | Hjálpar að hafa unnið á bar... » | Fífl! » | Svartsýni inc. » 

laugardagur, febrúar 19, 2005 

Aukaverkanir flensunnar

Þeir sem nennt hafa að hlusta á kvabbið í mér annars staðar vita að ég er búin að vera veik í þessari viku. Jamm, mín náði að næla sér í flensuógeð með alls konar skemmtilegheitum, eins og 40 stiga hita, blóðugum hósta, höfuðverk sem aðeins getur verið upprunninn í sölum vítis og allt þetta sem maður annars tengir við þetta ástand.

Það sem ég áttaði mig hins vegar á er að í þessu ástandi er maður í stórhættu á að gerast alvarlega eiturlyfjaháður. Þar sem hausverkur og hósti er búið að vera í forgrunni þess sem hefur þjáð mig, þá hef ég (að sjálfsögðu) ekkert verið að spara verkjatöflurnar. Ég nældi mér í góðan skammt af íbúkód og panodil og ætlaði sko aldeilis að gefa þjáningunum langt nef. Jú - blessað panodilið er nú sjálfsagt ekki það versta sem maður getur sett ofan í sig verkjalega séð, það er íbúkódið sem ég hefði átt að passa mig á. Maður er ekkert að spá í það að þessar litlu krúttlegu bleiku pillur innihalda jú kódein, sem er fínt við verkjum (enda náskylt morfíni og ópíumi og svoleiðis næsheitum) og hósta - en er líka ávanabindandi, því er nú skrambans ver. Þannig að eftir að hafa verið að bryðja þessar pillur óhóflega í eina viku vaknaði ég upp við það einn morguninn að ég var hlaupin fram í eldhús til að ná mér í nokkur stykki, alveg með dúndrandi höfuðverk, sem ég við nánari umhugsun var alls ekki viss um hvort væri vegna flensunnar eða hreinlega fráhvarfa!
Ég ákvað að vera ekkert að taka neina sénsa og hætti "cold turkey" á dópinu. Það var allt annað en þægilegt, en skrambi góð áminning um að maður þarf að fara varlega þegar kemur að þessum andskota.

En nú voru góð ráð dýr. Þar sem mér hafði tekist að rífa upp einhverjar æðar í einu hóstakastinu þá langaði mig dálítið að hefta hóstann. Svona aðallega vegna þess að mér þykir ekkert rosa sexí að spúa blóði yfir fjölskylduna mína... og jú, þeim þykir það frekar jökkí líka.
Ekki vildi ég halda áfram að troða mig fulla af kódeini til að drepa hóstann, svo ég gróf fram úr lyfjaskápnum flösku af hóstasaft og settist hérna í góða staðinn minn í sófanum og ákvað að tsjilla svolítið fram eftir morgni og aldeilis murka líftóruna úr hóstanum. Nema hvað, um hádegi þá hafði mér tekist að stúta 3/4 af flöskunni og var farið að líða ogguponsulítið eins og þegar ég kom heim af áramótafylleríinu núna síðast, um klukkan 7:40 að morgni 1. janúar... Ég fann einkennilega þörf fyrir að leggjast út af og sofa, ég horfði á kettina leika sér á gólfinu og þær litu frekar út fyrir að vera að gera jógaæfingar heldur en að leika sér í eðlilegum kattaleikjum.
Ég ákvað að fara bara inn í rúm og leggja mig, en þegar ég stóð upp þá höfðu fótleggirnir á mér eitthvað misst af skilaboðunum og urðu bara eftir, svo ég lá flöt í gólfinu við hliðina á jógakisunum mínum...

Mér tókst að skríða inn í rúm og drepast þar, vaknaði fimm klukkustundum síðar með höfuðverk sem var gráðu verri en nokkru sinni fyrr, nú bæði vegna fráhvarfa OG þynnku - EN ég var ekki hóstandi!! Júhú! Eittnúll fyrir mér!

Jæja pointið er að ég vonast til að fara að hrista þessa flensu úr mér, mig langar ekki til að þurfa að panta mér pláss á Vogi.