Li|iana on Ice: júní 2006

mánudagur, júní 26, 2006 

Fólk er pakk

Hún er undarleg, þessi árátta í Íslendingum að þurfa að byggja ljót hús.
Enn undarlegra finnst mér að áráttan virðist líka snúast um að það verði umfram allt að byggja sem flest ljót hús á mjög takmörkuðu svæði.

Nú get ég ekki sagt að ég búi í einu fegursta hverfi Reykjavíkurborgar - ég bý í Efra-Breiðholti, sem ég held að megi segja að sé það alljótasta. En nú er verið að taka örugg skref í átt að því að gera það nánast óbærilega ógeðslegt.
Hér er fátt annað en viðurstyggilegar steypublokkir. Hryllileg, kæfandi, sálardrepandi bákn full af: a) peningalega fötluðu fjölskyldufólki (moi), b) útlendingum (unnustinn) c) félagslega fötluðum dópistum/rónum, d) illa lyktandi geðsjúkum gamalmennum.
Ókei... þetta er alhæfing. En hreint ekki úr lausu lofti gripin.

Ég sætti mig við það að hverfið er ljótt. Reykjavík er ljót borg, svo einfalt er það. Svo maður getur víst ekki sett miklar kröfur um fegurðarfræðilega fullkomnun í ódýrum hverfum sem þessu. En það sem ergir mig í augnablikinu er að síðustu vikurnar hefur stór vinnuhópur unnið hörðum höndum rétt fyrir framan svalirnar hjá mér í því að byggja enn eitt báknið. Og það á einu síðasta lausa landsvæðinu sem hægt var að finna hérna. Jamm, nýta skal hvert það land, sem er meira en tíkall að flatarmáli, undir viðbjóðslegar steinsteypuhallir og malbik. Amen. -Er þetta annars ekki bein tilvitnun í einhverjar ályktanir svæðisskipulags borgarinnar? Það hlýtur bara að vera.

sunnudagur, júní 25, 2006 

Sálufélagi fundinn

Jebb jebb, ég rakst loksins á sálufélagann minn. Og hann kom m.a.s. í sjónvarpinu!! Kíkið á hann!

fimmtudagur, júní 22, 2006 

Þjófnaður

Jæja svona listar eru alltaf svo skemmtilegir þegar maður hefur ekkert betra að mala um. Fann þennan hjá Ernu Lóu og hikaði ekki augnablik við að taka hann ófrjálsri hendi, gjössovel:

1. Aldrei í lífi mínu: Keyrt mótorhjól.
2. Þegar ég var 5 ára: Eignaðist ég litla systur.
3. Menntaskólaárin voru: Tvískipt og þeim er enn ólokið.
4. Ég hitti einu sinni: Krónprins. *swoosh*
5. Einu sinni þegar ég var á balli: Lamdi ég mann í fars.
6. Síðastliðna nótt: Dreymdi mig illa.
7. Næsta skipti sem ég fer í kirkju: Verður ef einhver sem ég þekki giftir sig í kirkju og ákveður að bjóða mér.
8. Þegar ég sný hausnum til vinstri sé ég: Parket í stöflum.
9. Þegar ég sný hausnum til hægri sé ég: Módem...
10. Hvað eru margir dagar í afmælið mitt: Sjö mánuðir
11. Ef ég væri karakter skrifaður af Shakespeare væri ég: Cordelía.
12. Um þetta leyti á næsta ári: Ætla ég að vera í fokking fríi.
13. Betra nafn fyrir mig væri: Júní Brá
14. Fyrsta manneskjan sem ég myndi þakka ef ég myndi vinna verðlaun væri: Mamma og pabbi. Eða Pabbi og mamma... má það bara vera ein?
15. Uppáhalds morgunmaturinn minn er: Kaffi og sígó. Jömm...
16. Ég myndi stoppa mitt eigið brúðkaup: Ef unnustinn fengi skyndilega köllun og ákvæði að ganga í Krossinn.
17. Heimurinn mætti alveg vera án: Trúarbragða
18. Ég myndi frekar sleikja svínsrass en að: Fara aftur á samkomu í Krossinum.
19. Bréfaklemmur eru nytsamlegri en: Tásusokkar
20. Ef ég geri eitthvað vel er það: Syngja

 

Kjánaprik

Eins og þeir sem þekkja mig vita þá er ég náföl á hörund. Ég er alveg svakalega hvít og það er óskaplega lítið sem ég get gert í því, svona sólarlega séð. Því ég hef aldrei getað náð mér í lit með þessum hefðbundnu aðferðum sem fela í sér notkun á sólarljósi (eða staðgenglum þess), ég verð bara rauðbleik og hálfsteikt... minni í rauninni mest á hamborgarhrygginn á jólunum. Þannig að það er langt síðan ég gafst upp á að reyna að sóla mig. Húðin mín gúdderar það bara ekki. Eins gott kannski, því maður er nú alltaf að heyra einhvern skelfingaráróður þess efnis að sólarljósið sé jú bráðdrepandi andskoti sem allir ættu að forðast í lengstu lög.

Nú er það hins vegar þannig að ég er í vinnu. Ágætis vinnu alveg sem ég kann þrælvel við. Helsti ókosturinn við hana er samt hversu skelfilega ljótur einkennisbúningurinn minn er. Ég minni óneitanlega á randaflugu í vígahug þegar ég er komin í múnderinguna, þetta er skærgult og svart. Og það er meira að segja röndótt!
Hvað um það, gera þarf fleira en gott þykir... svo ég bít það í mig að nota blessaðan gallann þrátt fyrir að ég líti svona fáránlega út í honum, og hugsa bara eiganda fyrirtækisins (og föður þess hugarfósturs sem gallinn er) þegjandi þörfina.
Jæja, herlegheitin samanstanda sem sagt af skyrtu, vesti og buxum eða pilsi. Við ráðum hvort við notum buxurnar eða pilsið og vestinu þarf maður aðeins að bregða yfir sig á veturna.
Buxurnar eru þó svo hræðilegar að ég fæ það illa af mér að leggja fótleggina á mér í þær. Strengurinn á þeim nær mér upp að brjóstum, þær poka um rassinn og magann og svo skakkur hefur hönnuðurinn verið þegar hann rissaði ósköpin upp að þær eru niðurþröngar. Svo þröngar neðst að ég kem varla fótunum í þær. Þar fyrir utan eru þær svolítið of stuttar svo að það skín yfirleitt í bert hold milli buxna og sokka.

Þið afsakið mig. En þessu get ég ofur einfaldlega ekki klæðst. Já trúið því eður ei, en meira að segja ég hef mín takmörk!

Í allan vetur hef ég því stolist til að vera bara í mínum eigin buxum. Bara venjulegum, svörtum buxum, í trausti þess að eigandinn reki ekki inn nefið og sármóðgist við mig yfir því að ég skuli ekki nota buxurnar hans.
En núna er komið sumar. Og það er heitt í vinnunni. Mjög heitt. Þetta er oggulítil kompa og þar er maður innilokaður svo að segja 8 tíma á dag. Loftræstingin er ekki sú alsnjallasta á markaðnum svo að stundum verður hitinn nánast óbærilegur með öllu.

Mér flaug því í hug, svona til að eiga betri séns í að ná andanum yfir höfuð, að nota vinnupilsið! Nú megið þið ekki misskilja mig - það er líka óskaplega ljótt. En þó skömminni skárra en buxurnar sem eru bara á bannlista hjá mér! Það er líka þeim eiginleikum búið að ná fjári hátt upp á magann, en fjandinn hafi það, það er allt skárra en buxurnar. Í hitanum er m.a.s. allt skárra en mínar eigin buxur!

En ég áttaði mig á því að í pilsinu get ég engan veginn verið með leggina bera. Ég ber jú að miklum hluta til ábyrgð á því að viðskiptin gangi vel, verandi útibússtjóri og alles. Ég get því ekki með góðri samvisku flaggað á mér beinhvítu, beru holdinu. Kostnaðurinn við að kaupa logsuðuhjálma og fá alla viðskiptavinina til að nota þá meðan þeir eru í fimm metra radíus við mig yrði barasta allt of mikill.

Hvað gerir maður þá? Jú, maður kaupir sér brúnkukrem og makar sig út í því. Þessi krem eru orðin fjári góð nú til dags, því þumba eins og mér tekst að klína þessu á og verða fallega brún á litinn. Í gærkvöldi hófst aðgerð brúnkukrem. Ég var þreytt eftir vinnuna og í ofanálag frekar dösuð af vökvaskorti. Ég er nefnilega ekki fjarri því að ég hafi sleppt um 8 lítrum af raka út um hörundið í formi svita í gær. En málið er allavega það að ég var of þreytt og nennulaus til að maka þessu dýrindiskremi á allan skrokkinn á mér. Hugsaði með mér að fyrir öllu væri að geta notað vinnupilsið, svo að ég lét mér nægja að krema mig aðeins upp fyrir hné og láta það svo gott heita fram að helgi, því þá sé ég fram á að eiga tíma og nennu til að dreifa þessarri dýrlegu brúnku um allt mitt hold.

Þetta virkaði! Leggirnir eru fagurbrúnir svo ég get skammlaust notað pilsið mitt í dag. Jibbí fyrir því. Vandinn er bara sá að fjandans skyrtan er stutterma! Svo nú verð ég að krossa fingur og vona að enginn fari að velta fyrir sér óskaplega óeðlilegum litamuninum á handleggjunum mínum og fótleggjum. Því þetta er hallærislegt.is!

Adjö að sinni.

þriðjudagur, júní 20, 2006 

Jammz

You Are Fozzie Bear

"Wocka! Wocka!"
You're the life of the party, and you love making people crack up.
If only your routine didn't always bomb!
You may find more groans than laughs, but always keep the jokes coming.

mánudagur, júní 19, 2006 

Vinnutremmi

Alveg er þetta nú merkilegt.
Ég var búin að vinna eins og vitleysingur og hlakkaði svo skelfing mikið til að komast í pínulítið frí, tæma hugann og slaka á. Svo kemur fríið, jú allt voða næs og þægilegt - en ef ég hef ekki stanslaust eitthvað að gera þá bara kemst ekki annað að í kollinum á mér en hvernig þeim reiði nú af í vinnunni án mín... Ferlegt að vera svona óskaplega ómissandi!
Ég er nú alveg viss um að þetta gengur fínt hjá þeim... en fullkomnunarklikkspíran ég sé ekki fyrir mér að neitt sé almennilega gert nema ég hafi puttana í því sjálf. Ég er með sjúka mynd í höfðinu af ástandinu á heljarþröm þegar ég sný aftur (á miðvikudaginn, nb! Það er ekki eins og við séum að tala um mánaðarfrí!) og ég þurfi að liggja yfir klikkeríi fram á rauða nótt í heila viku til að laga allt sem úrskeiðis hefur farið. Ég veit vel að þetta verður andskotann ekkert tilfellið en svona getur heilinn nú verið furðulegur, það er svo erfitt að slíta sig lausan.

Ég er búin að lesa tvær bækur síðan ég kom á föstudagskvöldið, verð að finna mér eitthvað meira ef ég á ekki að verða snargeggjuð barasta. Nú er það svo að foreldrar mínir eru einir öflugustu bókasafnarar sem ég veit um, svo að við fyrstu umhugsun skyldi maður ætla að það væri ekki miklum vandkvæðum bundið að finna sér skruddu að líta í. En þegar ég renni augunum yfir bókahillurnar og sé titla á borð við „Undirheimar íslenskra stjórnmála“, „Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur“, „Árbók hins íslenska fornleifafélags“ og „Æviskrár samtíðarmanna“ (þjú bindi, hvert um sig 700 blaðsíður) þá fallast mér oggulítið hendur.
Ég veit að gimsteinarnir eru faldir í þessum haugum af óáhugaverðum titlum, en magnið af bókum er þvílíkt að mann syfjar dálítið við tilhugsunina um að hefja leitina. Ég geri ráð fyrir að enda í góðri sagnfræðibók fyrir rest, nóg er af þeim...

Snubbur er á leikjanámskeiði, í dag átti að spila fótbolta og fara í einhverja fleiri leiki. Hann átti óneitanlega dálítið erfitt með að snúa sér á lappir í morgun, við höfum ekki beint verið að fara að sofa á guðlegum tíma um helgina... á laugardagskvöldið fékk hann að vaka til hálftvö yfir Stellu í framboði. Svo hefur verið kúrt og kelað til hádegis, svo það er kannski ekki skrýtið að greyið hafi verið syfjað. Alveg er maður nú algjörlega óhæfur uppalandi!

En jamm, ég ætla að koma mér fyrir í sófanum með skruddu í fangi. Ég held á þessum tímapunkti að valið standi milli „Íslensk Skip“ (fjögur bindi) eða „Gestapó í Þrándheimi“. Held að síðari titillinn verði sá sem hljóti náð fyrir augum mínum að þessu sinni. Íslensk skip heilla mig lítið en Gestapó er spennó.

Lifið heil!

sunnudagur, júní 18, 2006 

Hæ hó

Jæja ég er í sveitinni núna í djúpri slökun og næsheitum. Það er verst að blogger býður ekki upp á hljóðblogg því þá myndi þetta bara hljóma einhvern veginn svona:

"AAAAAAAAAAAAAAHHHHHHHHHHHHHHHHHHH"

Þetta er sem sagt æðislega notalegt og svakalega gott. Það var búin að vera heillöng vinnutörn hjá mér síðustu vikurnar, snubburinn sendur í sveitina og ég fékk fyrst núna tækifæri til að koma og anda út og knúsa hann. Sæla.is.
Er búin að vera að lesa Hvunndagshetjuna eftir Auði Haralds, þetta er bók sem ég hef lengi ætlað að lesa en einhvern veginn alltaf gleymt þegar að því kemur að grípa skruddu á bókasafninu. En pabbi reddaði þessu óafvitandi; hann nefnilega gerir sér iðulega ferð á bókasafnið í Borgarnesi og kaupir bækur á hundraðkall stykkið (einhver lagersala þar) og hafði m.a. pikkað þessa upp í síðustu ferð. Get bara sagt að hún er æði! Mæli algjörlega með henni. :)

Það var náttúrulega haldið upp á þjóðhátíðardaginn okkar hérna í Shop-valley í gær, þetta var krúttlegasta (og um leið næstum sorglegasta) skrúðganga sem ég hef orðið vitni að... en voða gaman. Fjallkonan fleygði í okkur háfleygu þjóðernisrembingsljóði að vanda og það var voða fínt. Það var reyndar svolítið skondið að stuttu áður en hún sveif út úr húsinu til að mala ofan í okkur ljóðið var snubbnum sagt að hafa sig nú hægan og hlusta, því nú væri fjallkonan að koma og þá yrði að gefa hljóð, þetta væri svo hátíðlegt. Hann varð eitthvað kindarlegur á svipinn en sagði ekki neitt - fyrr en hún svo lét sjá sig og stillti sér upp við hljóðnemann. Þá sneri hann sér að mér og sagði að þetta væri nú léleg tröllkona, hún væri bara ekkert tröllkonuleg!
Honum hafði þá misheyrst eitthvað blessuðum... En þetta vakti ómælda kátínu.

Veðrið var bara alveg þokkalegt, ótrúlegt en satt, hann hékk þurr að mestu og það var logn! Sátt ég. Hérna eru svo nokkrar myndir:







En já, nú ætla ég að henda mér aftur í bókina, hafið það gott folks!

mánudagur, júní 05, 2006 

Afsökunarpóstur

Ég er búin að vera alveg hreint ógeðslega blogglöt upp á síðkastið. En ég hef góða afsökun! Það er ekki mögulegt að vera andríkur og fullur af góðum blogghugmyndum þegar vinnan manns sýgur úr manni alla orku. Það er búið að vera geggjað að gera undanfarið og þegar ég kem heim að vinnudegi loknum þá er ég álíka frjó í hugsun og granítmoli. Þá vil ég allra helst bara leggjast í sófann með góða bók eða kela við manninn minn eða eitthvað í þá áttina.

Það er samt alveg æðislegt að hafa svona mikið að gera. Í vetur var þetta svo óskaplega rólegt að ég hélt að ég yrði ellidauð í vinnunni upp á hvern dag. Nú hefur þetta heldur betur tekið kipp og dagarnir fljúga hjá á dúndrandi ferð. Miklu skemmtilegra að vinna svona. Svo ég er sátt. Ég er líka farin að gera svo margt annað en bara að sinna viðskiptavinunum - hluti sem hæfa mér mikið frekar svona upp á áhugann að gera - svo að þetta er allt mikið bjartara. Við erum að fá inn nýtt fólk og enn sem komið er er ég bara þrælánægð með það. Það er ferlega skrýtið að vera í yfirmannsstöðunni, ég hef aldrei staðið í þessum sporum áður. En þetta fylgir víst því að vera bankastjóri! Ha ha ha...

Snubbur er farinn vestur til ömmu og afa til að vera þar lungann úr sumrinu er ég smeyk um. Það var ekki nokkur vinnandi vegur að hafa hann heima í sumar, við útlendingurinn verðum bæði að vinna á fullu og tökum líklega ekki frí fyrr en í ágúst. Þá hefði snubb verið kastað á leikjanámskeið og tómstundacrap eitthvað alla daga. Ég var ekkert sérstaklega hrifin af þeirri hugmynd. Hann er búinn að vera í skólanum í allan vetur, í hörðu prógrammi frá 8-5 upp á hvern einasta dag og mér fannst ég bara ekki geta tekið af honum sumarfríið. Mér fannst ekkert sniðug tilhugsun að setja hann bara beint í nýtt heilsdagsprógramm. Þar fyrir utan er þessi fjári svo djöfulli dýr að það er ekki fyrir venjulegt fólk að innrita börnin sín í þetta!
Svo að vegna þess að ég á yndislegustu foreldra í alheiminum sem vildu leyfa honum að koma þá varð það úr að hann fékk bara að fara og njóta sveitasælunnar í Búðardalnum.
Ég er eins og vængbrotinn fugl hérna, finnst ég hafa misst rauða þráðinn í daglega lífinu - en hann virðist una sáttur við sitt og stórskemmtir sér í sveitinni við vopnasmíði og grillerí og leiki og gaman. Lovjú snubbur!








En jæja, nú ætla ég að halda í baðherbergisþrif, yndislegt að eiga óþunnan frídag og geta fiffað upp aðeins í kringum sig. Nú ætla ég að þrífa þvagstein af gólfinu í kringum klósettið. Svo get ég séð fyrir alvöru hver það er sem ber ábyrgð á þessum ófögnuði, því að snubburinn er jú farinn vestur. Svo að ef ósköpin halda áfram þá get ég kennt útlendingnum um þetta fyrir alvöru og skikkað hann til að brjóta odd af karlmennskuoflæti sínu og setjast á friggin' dolluna þegar hann þarf að míga! Og hana nú!

Over and out.

 

Datt mér ekki í hug!

Ég er svo mikill Íri í mér:
You Belong in Dublin

Friendly and down to earth, you want to enjoy Europe without snobbery or pretensions.
You're the perfect person to go wild on a pub crawl... or enjoy a quiet bike ride through the old part of town.