Li|iana on Ice: Meira júgró

« Home | Júgró nálgast » | Netpróf » | Íþróttir » | Frí » | HOT DANG! » | Breytingar » | Titill? » | Finnið fimm villur » | PMS » | Samsæriskenningar inc. » 

laugardagur, febrúar 18, 2006 

Meira júgró

Var að rekast á danska lagið. Ferlega finnst mér það slappt. Engin tólf stig frá okkur til Dana í ár er ég smeyk um. Í kvöld fer ég heim til Lindu og þarf því ekki að vera ein þegar hin óumflýjanlega hörmung skellur á. (Nú á ég við þegar Silvía Nótt hreppir fyrsta sætið.) Nei, ég get fengið að halda í hendina á henni og fá huggun og stuðning. Ég er hrædd um að ég komi til með að þurfa á því að halda, þrátt fyrir allan undirbúningstímann sem ég hef haft fyrir þessa stund.

Það er letilaugardagur hjá okkur snubb núna, ekkert nema notalegheit. Við tókum til í herberginu hans áðan - kominn tími til - og svo hitaði ég handa honum kakó og allt voða kósí. Hann fer svo í afmælisveislu á eftir. Reyndar var hann ekki beint á því að hann vildi fara. Hann svipti upp um sig bolnum sínum og belgdi út magann. "Sjáðu hvað ég er orðinn ógeðslega feitur! Ég ætla allavega ekki að borða neitt nammi í þessu afmæli!"
Hvaðan hefur krakkinn þessa firru? Með reglulegu millibili ákveður hann að nú sé hann að verða allt of feitur og fer í megrun! Og hann tekur því svo alvarlega að hann sleppir því að éta laugardagsnammið sitt og afþakkar fína helgerdesertinn. Einhvern veginn skil ég ekki að sjö ára barn sé að velta þessu fyrir sér. Sérstaklega ekki þegar um er að ræða heilbrigt og passlegt sjö ára barn. En hann er náttúrulega stórskrýtinn svona í heildina á litið.

Snubbur: "Mamma... getur maður fengið kvef í endaþarminn?"
Mamma: "Ha? Ég... sko... ha?"
Snubbur: "Já getur maður fengið kvef inn í rassgatið?"
Mamma: "Ég er nú bara ekki alveg viss um hvað þú... ég... ja... ha?"
Snubbur: "Ef maður er að kúka og snýtir sér í klósettpappír á meðan, ha, og svo skeinir maður sig með pappírnum með sýklunum í, ha, og getur þá ekki farið kvef inn í endaþarminn?"
Mamma: "Ja... maður hefur jú heyrt talað um iðrakvef... En ég held ekki..."
Snubbur: "Já ég er sko allavega hættur að snýta mér í kúkapappírinn."
Mamma: "Ætli það sé ekki bara best?"


Í gærkvöldi sat ég stíf af aðdáun í sófanum og horfði á frístæl keppnina í listhlaupi karla á skautum. Ég get ekki slitið mig frá þessum ósköpum þegar þau fyrst hefjast í sjónvarpinu. Ég næ ekki að pakka þessum rosalegheitum inn í hausinn á mér, ég skil einfaldlega ekki hvernig hægt er að gera mörg þessarra múva. Þau eru ómennsk! Gaurinn sem vann keppnina hlýtur annað hvort að vera sendur hingað af annarri plánetu eða þá að hann hefur setið við nám í rússneskum galdraskóla þar sem þyngdaraflsafnámsgaldrar eru kenndir. Ég trúi nefnilega ekki öðru en að galdrar komi eitthvað við sögu í æfingunum hans.
Það hlýtur bara að vera, því það getur ekki annað en útheimt heilmikið jafnvægi að sprikla þetta mikið og hoppa í hringi eins og skopparakringla hvað eftir annað, og það á skautum! Og maður með þetta nef getur ósköp einfaldlega ekki átt létt með að standa uppréttur í langan tíma, hvað þá mikið meira!

Híhíhíhí - þvílík endemis snilld!

Þú og drengurinn eruð algjörir snillinga, en mér þykir leitt að heyra að þér lítist svona illa á Sylvíu - því mér finnst það bara gaman!

Go Silvía

En fyrst þetta reynist þér svona erfitt er gott að vita að þú hefur stuðning vona að þú náir að jafna þig og að þú getir jafnvel farið sjálf í eurovision á næsta ári

þetta danska lag er bara alveg ágætt, einfalt og þægilegt, vona að ef kvefpestir herja á ykkur þá geri þær það réttu meginn hehe, gott hjá þér að vera svona bloggofvirk bara gaman

Skrifa ummæli