Li|iana on Ice: ágúst 2005

laugardagur, ágúst 20, 2005 

Ég lofaði Árnýju víst að ég skyldi uppfæra þessa færslu, hún verður víst að fá að lesa þetta... já eða bara fara að lesa gömlu færslurnar mínar sem ég skrifaði áður en við kynntumst! HNUSS

laugardagur, ágúst 13, 2005 

Úfff

Ég skal bara segja ykkur það að verri mistök en að reyna að æla hálfmeltri pizzu með MIKILLI hvítlauksolíu gerir maður varla!

Segi nánar frá afrekum gærkvöldsins síðar.

mánudagur, ágúst 08, 2005 

Spennufall

Jæja þá er Atvinnuviðtalinu lokið. Ég segi Atvinnuviðtalinu (með stóru A-i) vegna þess að þetta er búið að vera svo mikill stressvaldur hjá mér síðan ég vissi að ég væri að fara í það.
Ég átti að mæta klukkan hálfníu í morgun og vitandi það var ég alveg að fara á límingunum í gærkvöldi og nótt... sofnaði ekki fyrr en klukkan fjögur og var vöknuð aftur löngu áður en fuglunum dettur einu sinni í hug að fara að bæra á sér! Ég notaði þá bara tímann til að fara í langa og heita sturtu og taka svo smá hugleiðslu áður en ég vakti kallana mína, svona aðeins til að reyna að ná tökum á sjálfri mér. Ég hef náttúrulega ekki farið í svona viðtal síðan árið 1999, svo ég var illa skelkuð og dauðhrædd um að vera bara allt of stressuð til að koma upp stöku orði.
En þetta gekk vonum framar! Ég spjallaði við svakalega almennilega konu í klukkutíma eða svo og held svei mér þá að ég hafi náð að selja mig betur en nokkru sinni fyrr! ;)
Í það minnsta hringdi Tony í mig fyrir nokkrum mínútum til að segja mér að þegar hann hitti hana eftir viðtalið (hann er að vinna við að setja upp öryggiskerfi í þessum "banka") þá hafi hún verið mjög jákvæð og hrifin af mér, svo ég held að ég geti sagt með 89% öryggi að ég sé barasta komin með vinnu! Hún sagðist ætla að mæla fastlega með mér við manninn sem tekur endanlegu ákvörðunina, svo ég held barasta að ég geti verið mjög sátt.
Nú er bara málið að reyna að rúlla sér út úr þessu svaðalega spennufalli sem ég er í núna, ég er eins og fábjáni hérna úr galsa og vitleysu, enda búin að vera með kvíðahnút í maganum yfir þessu síðan á fimmtudaginn! Og ekki bætir úr skák að vera hroðalega illa sofin og fáránleg. Nú ætla ég bara að bíða róleg og senda jákvæðar hugsanir út í heiminn og sjá fyrir mér fyrstu launagreiðsluna mína! :D

The almost working girl says adjö!

sunnudagur, ágúst 07, 2005 

Hátíðniofnæmi

Það leikur allt á reiðiskjálfi hérna, það er svo mikið rok og þessi íbúð er greinilega ekki sú besta til að vera í undir þeim kringumstæðum. Það er einhver óþéttleiki í húsinu greinilega og þess vegna blístra allar dyr og skapa nokkurs konar ílukór sem aftur gerir það að verkum að ég er komin með skelfilegasta höfuðverk sem hægt er að ímynda sér! Og NEI ég var ekki að skralla í gærkvöldi, svo aldrei þessu vant er ekki hægt að skella skuldinni á það. Mig langar mikið að flýja íbúðina, þarf eiginlega að finna út hvort einhver er heima sem getur tekið á móti mér og familíunni í heimsókn þangað til veðrinu slotar. Any takers?

Annars skrallaði ég á föstudagskvöldið, fór með Nóní og Lindu og fleirum að gaula eitthvað í karaoke... Það leit nú ekki gæfulega út til að byrja með, ég fór í þrusufýlu við Baldur þegar við komum á staðinn en okkur tókst að jafna þann ágreining nokkuð farsællega svo þetta reddaðist allt saman. Ég var samt voða glöð að koma heim eftir þetta, enda eru ákveðin takmörk fyrir því hversu mikið af lélegum söng maður getur þolað! :D Svo var ég bara í rólegheitunum (lesist þynnkunni) í gær, horfði á tvær myndir hérna með köllunum mínum (og btw, Will Smith er nammi!)og gúffaði í mig sælgæti þangað til ég stóð á blístri. Alltaf gott að liggja í marineringunni. Svo er ég núna að búa mig undir VIÐTALIÐ MIKLA sem ég á víst að mæta í klukkan hálfníu í fyrramálið... ég er ekkert lítið stressuð yfir þessu, en ætla bara að krossa puttana og vona það besta. Er reyndar ekki enn búin að bjarga pössun fyrir álfinn minn á meðan ég þarf að skreppa þetta en gef mér að það reddist :S

Hey já ég má til með að koma að þökkum til hennar Kolbrúnar, ef ekki væri fyrir hana og tölvuna hennar þá væri ég ekki að skrifa þennan póst... hún lánaði mér lappann sinn, fyrst minn er í sjoppinu.
Svo veit ég ekki alveg hvað ég á að halda um hann son minn blessaðan... hvort ég á sem sagt að vera stolt yfir þekkingu hans á mannslíkamanum eða byrja að sætta mig við samkynhneigð hans... hann tjáði mér það í morgun að hann myndi alveg vilja fara í rass og rófu, svona til að skoða ristilinn og rannsaka endaþarminn vel og vandlega!
Drengurinn er á svo svaðalegu þermistigi að ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta!

Jæja nenni ekki meir núna. Bæbæ.

föstudagur, ágúst 05, 2005 

Blóðug leiðindi!

Mér leiðist svo mikið að ég er hættulega nærri því að fara að plokka af mér skapahárin, bara til að hafa eitthvað að gera! Hvað er með alla þessa bloggara sem ég þekki, enginn þeirra hefur sóma í sér til að drulla frá sér einni færslu þegar ég er í svo örvæntingarfullri leit að einhverju til að gera! Urga!
Ég fer ekki í atvinnuviðtalið fyrr en á mánudagsmorguninn, svo það þýðir að ég verð í svona flippi alla helgina af stressi og ég sé fram á að hafa allt of lítið að gera til að fixa þetta eirðarleysi! Reyndar var Nóní eitthvað að reyna að pumpa mig með sér í karaoke í kvöld en ég veit ekki hvernig það fer, þarf sennilega að redda pössun ef út í það fer því mig grunar að kallinn sé að fara á eitthvað strákafyggleí, í það minnsta heyrðist það mér á honum. Ég væri alveg til í að gera þetta með kellingunni, allt of langt síðan maður hefur eyðilagt tónlistarást fyrir fólki!

Er að spá í að fara að hengja út þvott núna, ég er alveg að tapa mér hérna! Hana! Þarna sjáið þið hversu langt ég er leidd!

fimmtudagur, ágúst 04, 2005 

Jamm

Jæja var ég ekki búin að lofa færslu? Ég held það...
Veit ekki alveg hvað ég á samt að tala um, það er svo óskaplega viðburðalítið allt hjá mér þessa dagana.

Við fórum jú í sumarbústað um verslunarmannahelgina til Lindu og co. og urðum vel blaut í endalausri rigningu og ágætlega geðveik í endalausum klið - enda komu þarna í þennan litla bústað allt í allt 25 manns meðan á helginni stóð og þar sem veðrið var ekki akkúrat eitthvað til að hrópa ferfalt húrra og fara í flikk flakk heljarstökk yfir þá héldu allir sig mestmegnis innandyra allan tímann og það var vægast sagt soldið brjálað! En það er alltaf gaman að vera með góðu fólki og þá reynir maður bara að minna sig á að þröngt mega sáttir sitja og það kjaftæði allt saman! Engu að síður var voðalega notalegt að koma heim í þögnina á sunnudagskvöldið og slappa af í svolitla stund áður en ég hélt á skrall með the gellz... sem varð reyndar ekkert svaðalegt skrall en það er allt önnur saga. Um næstu verslunarmannahelgi ætla ég að vera í bænum eða erlendis, nema þá að það verði ÖRUGGT mál að það verði rjómablíða og gott veður á þeim stað innanlands sem fyrir valinu kann að verða.

Já og svo var það að renna upp fyrir mér að sumarið er að verða búið! Það eru bara einhverjar rétt rúmar tvær vikur í að guttalingurinn minn byrji aftur í skólanum og þá tekur rútínan við aftur...ekki svo að skilja að það sé eitthvað voðalega slæmt, þetta letilíf er búið að ganga út í hálfgerðar öfgar upp á síðkastið og það verður örugglega ágætt að komast í einhverja reglu aftur. Ég er enn enga vinnu búin að verða mér úti um en vona auðvitað að ég geti farið að hala inn beikonið á heimilið sem fyrst, það er svo leiðinlegt að vera blankur! Reyndar var maðurinn minn elskulegur að redda mér viðtali í einhverjum sænskum banka sem ég þarf að fara í á morgun, það verður fróðlegt! *gúlp* Nú er ekki seinna vænna en að fara að pússa upp norskuna mína, karlinn tjáði mér að það væri óvitlaust að leyfa viðtalinu að fara fram á því ylhýra máli... hef ekki neinar svakalegar áhyggjur af því, nema þá ef ég verð þeim mun stressaðri, þá gæti allt farið í klessu! Nei nei þetta verður allt í fína, ég helli í mig hálfflösku af vodka áður en ég held af stað og þá ætti þetta allt að verða veldig bra! *fliss* Sem sagt, ef mér tekst að koma sæmilega fyrir er aldrei að vita nema ég verði komin í vinnu innan tíðar, ég hugsa að það standi bara á því hversu vel mér tekst að selja mig, starfskröfurnar eru út af fyrir sig ekkert voðalegar. Í það minnsta held ég ekki að maður verði að vera með doktorsgráðu í eldflaugaverkfræði til að geta selt útlendingum íslenskar krónur!

miðvikudagur, ágúst 03, 2005 

Ekki dáin

Nei ég er það ekki! Í alvöru! Ég fer að koma með eitthvað, ég lofa ég lofa!