Li|iana on Ice: janúar 2006

fimmtudagur, janúar 19, 2006 

Líkamsræktin með trukki!

1. Amma mín hóf að ganga 10 km á dag þegar hún var 60 ára. Í dag er hún 97 ára og við höfum ekki hugmynd um hvar hún er.

2. Ég keypti árskort í World Class á síðasta ári. Ég hef ekki misst eitt kíló. Það þurfti víst að mæta.

3. Ég æfi ávallt mjög snemma á morgnana, áður en heilinn veit hvað ég er að gera.

4. Mér finnast langir göngutúrar góðir, sérstaklega þegar fólk sem ég þoli ekki fer í þá.

5. Lærin á mér eru rosalega slöpp, en sem betur fer hylur siginn rassinn á mér þau!

6. Kosturinn við að æfa daglega er að þá dey ég heilsuhraust.

7. Ef þú ætlar í maraþonhlaup þvert yfir sýslu, mundu þá að velja þá minnstu.

8. Og síðast en ekki síst þá æfi ég ekki, því þá skoppar kókið upp úr glasinu mínu.
Ég hefði getað gengið með þetta bréf til þín og sýnt þér það, en ákvað að setja það frekar á netið!!!!

sunnudagur, janúar 08, 2006 

ÓKEI!

Ég skal þá blogga!

Þessi færsla verður líka um djammatburði, engin stór breyting frá síðustu færslu þar...

Ég fór í partí í gær hjá Unni, vinkonu Jónínu vinkonu. Þetta var þemapartí þar sem allir áttu að mæta með eitthvað höfuðfat eða hausskraut og vera í sparifötum. Gallabuxur voru m.ö.o. bannaðar, konur áttu helst að vera í síðkjólum og karlar í fínum jakkafötum. Ég velti lengi vöngum yfir því hvað ég átti að setja á hausinn á mér, þar sem ég er afar fátæk í höfuðfatamálum. Stráksa mínum tókst að týna einustu húfunni sem ég átti, svo ég varð eitthvað að föndra. Ég brá á það ráð að taka nokkur silkiblóm sem ég átti í borðskreytingu hérna og sauma þau föst á hárspöng sem ég átti. Þetta varð hið fínasta hausskraut og svo strílaði ég mig upp í fínan kjól og hélt í partíið.

Þarna var bolla á boðstólnum sem ég vingaðist hressilega við - og Unnur, þessi elska, bauð upp á íslenskt eitur (að mati big-Q); Ópal skot. Það þarf því vart að taka fram að stuð-stuðullinn á fólki var orðinn nokkuð hár þegar ákveðið var að halda niður í miðbæ. Þá var klukkan þrjú. Ekki veit ég hvað málið er með allt þetta fólk, en bærinn var stappaður! Við stóðum í hálftíma röð eftir að komast inn á goddam CELTIC CROSS! En það var þó ekki fyrr en við höfðum upplifað leigubílatúr DAUÐANS! Við sungum allar, án gríns: Við munum öll, við munum öll, við munum öll, DEYJA!!

Það byrjaði á því að þessi öfgahálfviti, sem leigubílstjórinn er, keyrði á bíl á bílaplaninu hjá Unni. Verandi heiðvirður borgari vildi hann ekkert keyra bara í burtu og vildi endilega hafa uppi á eiganda bílsins. Það var þó ekkert hlaupið að því, vegna þess að blessuð druslan sem hann keyrði á var númerslaus og allslaus. Hann stóð því fyrir utan bílinn og klóraði sér í höfðinu í óratíma, veltandi vöngum yfir því hvað hann ætti eiginlega að gera. Þá vildi svo heppilega til að eigandi druslunnar var að koma heim af skralli. Hann var nettur á þessu og ekkert súr (sem ég skil vel, þetta var afgömul, afdönkuð bíldrusla sem best væri nýtileg sem kókbaukur - eftir enduvinnslu vitanlega). En þá hófust þau almestu furðulegheit sem ég hef orðið vitni að. Fæðingarhálfvitanum (nú á ég við bílstjórann) datt engin ráð í hug önnur en að ýta druslunni sem hann hafði ekið á til hliðar, í stað þess sem við töldum öll eðlilegast, að bakka til baka sömu leið og hann ók á! Við stóðum þarna öll, við stelpurnar sem ætluðum í sakleysi okkar að komast í miðbæinn, eigandi bílsins og vinur hans og skiptumst á "WTF-lúkki". Okkur tókst samt að telja leigubílstjórann á að bakka til baka - sem virkaði alveg hreint glimrandi vel!
Jæja, þarna voru liðin einhver þrjú korter en við komumst þó af stað. Það tók sko heldur betur ekki betra við. Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig þessi maður hefur leyfi til að sitja undir stýri, því þvílíkt og annað eins aksturslag er eitthvað sem ætti að taka sem dæmi í ökuskólum um hvernig alls ekki, undir nokkrum einustu kringumstæðum á að keyra! Ég þorði ekki annað en að reyra fastar á mig öryggisbeltið og halda svo dauðahaldi í handfangið ofan við rúðuna, ég var handviss um að mín síðasta stund væri á næsta leiti!

Einhvern veginn blessaðist þetta þó, og ég get ekki þakkað það neinu öðru en einhvers konar æðri mætti. Þegar hann stoppaði bílinn niðri í bæ og við vorum allar búnar að sleppa út djúpu andvarpi rukkaði hann okkur. Við vorum þó frekar á því að við ættum að rukka hann um einhvers konar skaðabætur, en hann fór ekki ofan af því að 2.300 krónur skyldum við borga! Það var ekki fyrr en ég tók niður númerið hans og hótaði því að ég tilkynnti hann að hann samþykkti að veita okkur afslátt. Skárra væri'ða nú!!

Og þá er komið að röðinni. Við stóðum eins og fyrr sagði í röðinni í hálftíma, allar draugfínar í háhæluðum skóm og þvílíkt uppstrílaðar. Ekki mjög sniðugt. Það var skítakuldi og ömurlegt veður. En við sáum hlýjuna og bjórinn inni fyrir í hyllingum (hillingum?) svo við létum okkur hafa þetta. Við komumst loks inn á yfirpakkaðan staðinn, hvar gleðin hélt áfram. Það voru engin sæti að finna, svo ég stóð barasta við barinn. Einhvern veginn vildi það svo til að ég hóf grettukeppni við mann sem stóð við hinn enda barsins. Þennan mann hef ég aldrei séð áður, en við skemmtum okkur stórkostlega við að framleiða furðufés! Þetta var óneitanlega skemmtilegasta bar-eyecontactmóment sem ég hef átt. Ekkert fíflalegt daður eða perralegt lúkk, heldur bara alvöru, hressileg grettukeppni! Ég er ekkert að grínast með þetta, í alvörunni! Það urðu að þessu fjöldamörg vitni sem flest hlógu sig máttlaus...

Við héngum svo þarna fram að lokun. Við vorum öll orðin kengfull svo það var vænst að drífa sig barasta heim. Ég vildi samt ekki fara fyrr en ég væri búin að fá mína hefðbundnu Pizza King djammpizzusneið, svo við trítluðum okkur niðureftir til að skófla aðeins í andlitin á okkur. Pizzusjoppan var svo ógeðslega kjaftfull að ég hef aldrei séð annað eins! Það vill nú svo skemmtilega til að ég var að vinna í þessu húsnæði áður en það breyttist í pizzastað. Þá var þetta sjoppuleg sjoppa og eina skiptið sem ég man eftir að hún hafi verið svona stappful var á menningarnótt 2002. Þá var það þannig að fólk þurfti að klifra upp á þvöguna til að komast að afgreiðsluborðinu, og þannig var ástandið einnig í gærkvöldi. En ég er náttúrulega vörpuleg kona svo ég olnbogaði mig áfram að afgreiðsluborðinu. Pizzuna skyldi ég fá! Það gekk fyrir rest og ég haugaði á hana vel af hvítlauksolíu, chiliolíu, svörtum pipar, parmesan og oregano (þvílíkt sælgæti!!) og hófst svo handa við að éta herlegheitin, sem var hægara sagt en gert í þessari þvögu. Það nægir kannski að segja ykkur að það er eins gott að kjóllinn minn var ekkert allt of mikið spari-spari, því ég er helst á því að henda honum bara, ég efast um að gumsið náist allt úr...

Jónínu tókst svo að húkka handa okkur bíl í Lækjargötunni svo við sluppum við að standa í leigubílaröð sem lætur röðina á 17. júní líta út eins og við kassa í Bónus á venjulegum þriðjudegi klukkan 13:07! Það er ekki laust við að maður hafi verið soldið skeptískur á að setjast upp í leigubíl eftir fyrri reynslu kvöldsins af þannig bíltúrum, en mig langaði ekkert til að labba heim í Breiðholtið á pinnahælunum mínum... Þessi bílstjóri ( Jón Örn Ásmundsson) var þó alveg dásamlegur og rabbaði mikið við okkur á leiðinni heim, um prinsippið í því að forma leigubílaröð og vera ekkert að húkka bílana annars staðar. Ég er nefnilega á því að bílarnir eigi andskotann ekkert að vera að stoppa annars staðar en við röðina, því að ég er svo djöfull og andskoti óheppin að það er algjörlega sama hvað ég reyni, mér tekst aldrei, aldrei, aldrei að húkka mér bíl annars staðar, þótt öðrum takist það kannski. Og nei! Þetta hefur ekkert með það að gera að ég sé svona ógeðslega ófríð eða þá að ég líti alltaf út eins og líklegur kandidat í að æla í leigubíla!

Þegar við komumst loksins heim þá stóð sorglegt konugrey fyrir utan blokkina í afar annarlegu ástandi - og ég er alls ekki að tala um að hún hafi verið ofurölvi. Nei hún var svo kafdópuð að mér varð flökurt af meðaumkvun. Þá var vandamálið hennar að hún vildi komast inn til vina sinna sem búa víst í húsinu (kemur ekki á óvart) en gat ekki fyrir nokkurn mun fundið út úr því hvernig dyrasíminn virkar. Það er ekkert furðulegt, það ætti að fylgja húsinu kall sem stendur fyrir utan dyrnar þegar það er læst, sem tekur fólk í námskeið um þennan dyrasíma. Ég hjálpaði henni að hringja til vinafólksins sem, þegar allt kom til alls, vildi ekki rassgat fá hana inn til sín (enn og aftur; kemur ekki á óvart). Konukvölin brotnaði þá alveg niður og sagðist ekki vita hvað í ósköpunum hún ætti að gera, hún ætti heima í Hafnarfirðinum, ætti enga peninga (ég þykist geta sagt með nokkurri fullvissu að hún hefur sennilega kokkað aurana sína upp í æðarnar á sér) og gæti alls ekki komist heim. Ég lánaði henni símann minn til að hringja nokkur símtöl og það endaði með því að hún fékk skutlþjónustu ríkisins (lögguna) til að fara með sig heim. Ég beið henni til samlætis eftir löggimann og kvaddi hana svo, óneitanlega mun þyngri í hjartanu en ég hafði verið fram að þessu atviki. Hún faðmaði mig að skilnaði og þakkaði mér fyrir góðmennskuna, sagðist mun vanari mun leiðinlegri framkomu fólks - sem ég verð að játa að hefði líklegast verið mín framkoma líka hefði ég ekki verið komin svona vel í glas og orðin þetta meyr...

Eftir þetta viðburðaríka kvöld var afar notalegt að komast í dásamlegastastasta rúmið í heiminum (ég er að tala um rúmið mitt) og steindrepast.
Klukkan var jú, fjandakornið orðin hálfníu!