Li|iana on Ice: maí 2006

miðvikudagur, maí 17, 2006 

Jólin að koma!!

Ég lofaði víst Bambamömmu að blogga, ég er allt of andlaus eitthvað og annars hugar þessa dagana (ok og vikurnar og mánuðina) til að nenna blogginu, en það verður þó alltaf eitthvað þótt það líði langt á milli. Þar sem ég hef ekkert að segja nema 'mig langar í heimsókn' þá læt ég júgrómaníuna duga. Það er sem sagt bara tæpur sólarhringur í stærstu hátíð ársins! Ég er schpennt! Hérna eru nokkrir þankar um þátttakendurna í ár:


Sviss:

Æ mér þykir þetta óttalega klént. Ábyggilega með bestu fyrirætlan, til að lyfta hugum fólks og vekja það til samkenndar og hlýrra hugsana. En þetta verður bara hálfgerður rembingur. En þetta er ágætlega flutt, raddirnar hljóma vel saman og útsetningin er vel heppnuð. En þetta minnir mig of mikið á 'Love shine a light' - sem ég hélt aldrei upp á, finnst svona músík eitthvað svo tilgerðarleg. En hey, það lag vann keppnina, svo það eru einhverjir þarna úti að kaupa þetta. Ætli ég smelli ekki 5 á þetta, þetta er ekki alslæmt.

Moldóva:

Nei þetta er bara leiðinlegt. Ekkert grípandi við það og lagið er eiginlega bara pirrandi. Það sem vísast til á að vera viðlag er bara svona endaleysa sem ergir mig. Tilþrifalítið og súrt. Nei takk, ekki í tebollann minn. 2.

Ísrael:

Mikið er ég svekkt að þetta lag er svona snemma í röðinni. Það er allt of snemmt að taka pissupásuna frægu í þriðja lagi. Eddí hefur samt fína og þægilega rödd en það er ekkert í laginu sem talar til mín eða hrífur mig. Þarna er svo líka þessi tilgerðarlegi rembingur í textanum - þetta er bara orðið syfjað. Lagið fær 4.

Lettland:

Þegar ég heyrði þetta fyrst hljóp í mig örvænting. Hún snerist um að ég gat ekki komist nógu hratt í stopp-takkann. Ég ákvað að hvíla mig á því í svolitla stund og gefa því séns seinna. Ég er jú mikill aðdáandi svona tónlistar almennt, mér finnst æðislegt þegar raddir eru notaðar svona saman og framleidd með þeim litrík músík. Og það er alls ekki hægt að halda því fram að þessir gaurar séu hæfileikalausir. Langt því frá, talentið er heilmikið og þeir hljóma æðislega saman.

Jæja ég herti upp hugann nokkrum dögum síðar og skellti laginu á aftur. Mér til gleði þá fannst mér þetta lagast heilmikið - ég komst að því að ég hafði kannski verið of fljót að ryðjast í stoppið í fyrra skiptið, því það er í rauninni bara byrjunin sem mér mislíkar. Mér finnst hún enn algjör skelfing, en eftir allmargar hlustanir þá kann ég þrælvel við restina af laginu. Það fær 7. Gæti verið 8 en byrjunin er of glötuð.

Noregur:

Mér finnst þetta alveg dásamlegt lag. Það hreif mig algjörlega þegar ég heyrði það fyrst. Christine syngur eins og engill og röddin hennar hæfir laginu frábærlega. Samt var eitthvað sem fór svolítið í mig... kannski mér hafi þótt þetta of írskt einhvern veginn. Það þarf engan veginn að vera slæmt, ég er aðdáandi írskrar tónlistar númeró únó en þetta svona potar í mig af og til og ég átta mig ekki alveg á því út af hverju. En það breytir því ekki að lagið er fallegt, og sérstaklega brúin og seinni parturinn. Ég held ekki að lagið vinni en ég skal hundur heita ef það heldur ekki Norðmönnum í aðalkeppninni að ári. 9!

Spánn:

Jahá! Ég játa að það fór um mig hrollur þegar ég frétti að tómatsósugellurnar ættu að taka þátt í keppninni í ár. Þvílíkur og annar eins hryllingur og hroðbjóðurinn þeirra hérna um árið hefur ekki heyrst síðan Macarena var og hét. Ég var sem sagt smeyk. En það var óþarfi, ég kann þrælvel við lagið og dilla mér oft og iðulega við það. Kúl taktur í því og þeir klikka ekki á því spanjólarnir að halda sig við sínar eigin rætur. Takk fyrir það. 8.

Malta:

Önnur endaleysan. Mér finnst bara rétt svo stigsmunur á þessu og moldóvska laginu. Þetta hefur þó vinninginn í þeim samanburði því að það örlar þó fyrir því í þessu lagi að viðlagið hrífi mann. En annars þykir mér þetta bara þunn tyggjókúla. Þetta er of krakkalegt fyrir minn smekk. 4.

Þýskaland:

Ég hreifst rosalega af þessu lagi þegar ég heyrði það fyrst. Mér finnst kúl að klína kántrí í keppnina. (Sláið þessum káum við!) Glansinn fór samt dálítið af laginu eftir því sem ég heyrði það oftar, ég held að það sé vegna þess að mér finnst vanta eitthvað upp á í sönginn hjá skvísunni. Hann er einhvern veginn svo flatur og hálf daufur. Það passar í byrjuninni á laginu en ekki eftir að trommurnar og tjúttið koma inn. Dálítið svona eins og henni leiðist að syngja þetta eða hún sé bara orðin þreytt á laginu. En það nær ekki að drepa lagið fyrir mér samt, það er enn í uppáhaldi hjá mér.

Það er svona einhver danskur 'Never ever let you go' -fílíngur í laginu (tilviljun?) og það hlýtur að vera jákvætt. 8.

Danmörk:

Ég elska tímabilið í tónlistarsögunni sem þetta lag á rætur að rekja til. Ég er svo mikill óldtæmer í mér að þetta er bara það sem kveikir í mér. Ég er ekki alveg viss um að lagið sé nógu sterkt. Það er svolítið þunnt - og þótt klisjur eigi svo sannarlega heima í Eurovision og ég sjái ekkert athugavert við að afrita þennan tónlistarstíl þá finnst mér að það hefði alveg mátt gera meira úr þessu. Það er of mikið plast í textanum, get ekki orðað það betur. En stelpan syngur þetta þrælvel og mér finnst hún alveg skila sínu. Þrátt fyrir vankantana þá nær lagið alltaf að toga í mig og láta mig aðeins sveifla óæðri endanum. Ég gæti alveg trúað þessu til að fara langt ef framsetningin á sviðinu verður nógu grípandi. Ástaruppávindan fær einkunnina 7.

Rúmenía:

Ég á í miklu basli með þetta lag. Það er alveg ókei en nær ekkert til mín. Mér finnst bara að ég hafi heyrt það allt of oft á einhverju klúbbatölti. Og bíddu... sendu þeir ekki alveg sama lagið í keppnina í fyrra nema sungið af konu? Einhverjum bjöllum hringir það...

Ég gæti samt trúað að það fái skíthaug af stigum frá fólkinu sem ekkert elskar meira en rosalegt trommushow og læti og hamagang og power á sviðinu. Já því ég get bókað það að þannig verður það sett fram. Eigum við ekki að segja 5 bara? Jú gerum það, þetta gerir ekki meira fyrir mig en það.

Bretland:

Æj... Whott didd jú löön en skúúl túdæ?

Ekki veit ég hvað þeir kenna almennt séð í Jú Kei en ekki eru þeir að kenna fólki að það er ljótt að stela. Þetta gerði sig hjá Eminem en þetta er stórt og feitt flopp hjá honum Daz blessuðum. Og ekki er þeim alvara með þessum texta? Það getur ekki verið... þetta er bara hörmulegt. Ef þetta lag er ekki talandi dæmi um hvað það getur gert þessum stóru þjóðum sem eru öruggar inni í aðalkeppninni ár eftir ár, þá veit ég ekki hvað. Þetta er metnaðarlaust og leiðinlegt. Það fær 2. Og það fyrir gettóframburð bakraddanna.

Grikkland:

Páerballaða af næstbestu sort. Páerballöður af bestu sort bjóða upp á texta. En því er ekki fyrir að fara hérna. Alveg hefði ég tekið þetta lag og misnotað illilega í mp3 spilaranum mínum hefði verið almennilegur texti við það. Mér finnst ósegjanlega sorglegt að textinn skuli vera svona glataður, því að svona stórbrotið lag og svona stórbrotin rödd á skilinn stórbrotinn texta. Ég hefði þá frekar kosið að hafa lagið á grísku (sem ég skil ekki rass), því þá hefði ég þó getað ímyndað mér að það væri verið að segja mér eitthvað og ég hefði kosið lagið í fars. En hey, ég á ábyggilega eftir að kjósa það smá samt. Bara ef Anna verður ekki of gáluleg á sviðinu. Sakis má tæta sig úr fötunum hvar og hvenær sem er mín vegna en ekki Anna. 9.

Frakkland:

Breim var það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég heyrði þetta lag. En það var skárra en hrollvekjandi endaleysuleiðindin sem fransarar buðu upp á í fyrra svo ég var nokkuð sátt bara. En lagið það fór bara alveg framhjá mér þar til nýlega. Þetta er svona lag sem lagast og lagast eftir því sem maður heyrir það oftar. Núna finnst mér það óskaplega fallegt. Það er svona angurværð í því sem að snertir mig (nú veit ég ekki baun um hvað það fjallar en ófullnægða breimið hefur þessi áhrif). Ég hef samt grun um að þessi fyrstu framhjáfoksáhrif verði það sem flestir verða fyrir þegar á hólminn er komið og þetta á ekkert eftir að ná langt. Svo endar það líka voðalega skringilega. Svona eins og þeim hafi ekki dottið neitt meira í hug og ákveðið að slútta þessu bara. Kannski er eitthvað í textanum sem útskýrir þetta en af skiljanlegum ástæðum þá næ ég því ekki. En af því að ég held upp á sorg og depurð og tilfinningasemi (og ketti) þá fær lagið 7 hjá mér.

Króatía:

Heyriði mig nú alveg... Ég botna ekkert í þessu lagi. Segir konan nokkuð 'voff voff voff voff' í upphafi lagsins? Ég vona innilega að ég sé að misheyra þetta. En miðað við restina af laginu þá getur það svosem vel verið að hún sé virkilega að voffa. Eða kannski er hún að kyrja 'vont vont vont vont'? Hvað um það, þetta er pirrandi óreiða. Það skrýtna er að þegar ég heyrði það fyrst þá dýrkaði ég það! En það var bara í allra fyrsta skiptið. Þegar ég heyrði það aftur þá efaðist ég um að ég hefði verið edrú í fyrra skiptið. En vá hvað ég vona að þau slái þessu bara upp í kæruleysi á sviðinu og hafi gaman að sjálfum sér. Því það er það eina sem lagið býður upp á; það hlýtur að vera ógeðslega gaman að flytja það. Ég gæti sem best trúað að það fari þrusulangt bara út á frumlegheitin og ???-faktorinn. En hjá mér fær það bara 5, mest út af því að mér finnst sjúklega gaman að verða vitni að því að 'afrika, paprika' er sett í texta.

Armenía:

Velkomnir Armenar! Mér finnst þið byrja bara alveg þokkalega. Lagið er grípandi og þjóðlegu áhrifin fá að vera memm í þolanlegu magni. Gott mál. Þetta gæti orðið þrælskemmtilegt á sviðinu og ég held að ég smelli einu atkvæði á ykkur, af því að ég er hrifin af mönnum sem eru sáttir við sína einu augnabrún. Jú og líka af því að ég kemst ekki hjá því að dilla mér og tjútta svolítið þegar ég heyri þetta. Textinn er slappur en það er allt í lagi vegna þess að hann er svo skelfilega illa borinn fram að maður getur bara ímyndað sér að þetta sé tilbúið tungumál. Einkunnin er 7. 8 ef Andre lætur ekki undan samfélagsþrýstingi og plokkar á sér augnabrúnina.

Búlgaría:

Leiðindi.com! Þetta er bara alveg hreint afleitt lag í alla staði. Ég get svo svakalega lítið sagt um það annað að ég sleppi því að reyna. Það fær 1.

Slóvenía:

Þetta lag á pottþétta möguleika á að gera það ógeðslega gott á hommaklúbbum víðs vegar um Evrópu. Alveg. Ég sé vel vaxna, samkynhneigða, sveitta unga menn, bera að ofan, algjörlega fyrir mér dansa tryllingslega við þetta með andlitið markað sporum tómrar hamingju og algleymis. Frábært! Ég vildi óska að ég væri ekki álitin hallærislegur aðskotahlutur á þessum stöðum því að þetta eru bestu skemmtanir í alheiminum. Og ég er nokkuð klár á að þótt þetta lag væri bara á rípít heilt kvöld þá væri það allt í lagi, það myndu allir skemmta sér vel þrátt fyrir það.

Ég elska hvernig Balkanskagarar bera ensku fram, það er dásamlegt að heyra 'you're crchhurting me...' Svo er Bondfílíngur í þessu lagi líka - á einn máta finnst mér það minna mig heilmikið á lagið okkar í fyrra. Nema að ef Slóveni hefði flutt það þá hefði það verið 'If I crchhad your love!' Einkunnin verður 8. Þetta er fínt alveg.

Andorra:

Ég elska þetta lag. Söngkonan hefur æðislega rödd, lagið er sterkt og grípandi og stórt, ég fíla þetta í hakk. Svo er það sungið á þeirra ástkæra ylhýra svo að hér skiptir engu máli hvort hún syngur um kartöflur og blómkál eða ástina eða stöðu fátækra eyðnismitaðra Afríkubarna - ég skil það ekki hvort eð er, en mér finnst þetta flott. 9!

Hvíta Rússland:

Frekar slappt. En ekki alglatað. Rokkaður gítarhljómur er alltaf plús - og hérna er það plúsINN. Ég er ekki alveg viss, en ég hef óljósan grun um að textinn sé enskur. Það er þó svo til ómögulegt að vera klár á því. Einkunnin skal vera 5. Þetta á ekki eftir að gera neina stóra hluti en ég hef heyrt margt mikið verra í lagaflórunni í ár.

Albanía:

Ha? Hvaða lag? Fyrirgefið, ég hlýt að hafa misst af því.

Þetta er þannig lag. Það skilur alls ekki neitt eftir sig og er algjörlega gersneytt allri tilfinningu. Það bara kemur og fer og enginn getur mögulega munað eftir því. Einkunnin 3 kemur út af því að þetta gæti alveg verið lag ef það væri betur (mikið betur) útsett.

Belgía:

Jú jú ókei. Alveg ókei. Þetta á ábyggilega eftir að ná upp úr forkeppninni og jafnvel komast langt í aðalkeppninni. Fólk fílar svona blöðrur einhverra hluta vegna. Svo er stelpan sæt (þótt hún líti dálítið út eins og gömul, brún leðurpyngja í framan) og rosakroppur og það er vinsælt. Þetta nær upp fyrir miðju hjá mér miðað við úrvalið en þetta er alls ekki í uppáhaldi. Ég verð einstaklega þreytt á þessu lagi og þoli alls ekki að heyra það oft. Svo að ég verð pirruð ef það vinnur. Sem gæti m.a.s. alveg gerst. Það fær 6.

Írland:

Nú ætla ég að vera skrýtin og segja að mér finnst þetta æðislegt lag. Ég ætla líka að vera enn skrýtnari og segja að ég hef ekki hugmynd um af hverju mér finnst það. Ég hugsa þó að það sé bara söngvarinn, hann er með algjörlega fan-brilli-tastic rödd. Mér verður einhvern veginn hlýtt og mér líður notalega þegar ég heyri í honum. Það skemmir samt fyrir hvað textinn er ógeðslega klénn og hallærislegur. Í rauninni skemmir það nógu mikið fyrir til að í staðinn fyrir að gefa 9 gef ég bara 7. Svo finnst mér líka eins og það vanti pínulítið upp á lagið, ég hefði fílað það betur ef það hefði verið meiri 'uppbygging' í seinni kaflanum og einhverjir smá flugeldar... eða bara neistar, það hefði verið nóg. En í staðinn er það bara alveg eins út í gegn og maður situr með öndina dálítið í hálsinum, spenntur að fá hrollinn sem kemur ekki.

Kýpur:

Mér fannst þetta dálítið grípandi og lekkert þegar ég heyrði það fyrst en fékk það svo bara í kokið þegar ég hlustaði meira. Mér leiðist þetta lag og sérstaklega 'talkin' 'bout the peace and harmony' -hlutinn. Mér finnst ég finna fýlu af þessum tilgerðarlegheitum í þessu líka. Svo að það nær ekki langt hjá mér. Það fær 5.

Mónakó:

Tinky Winky, Dipsy, Laa Laa, Po!

Eða svona næstum því...Þetta er algjörlega eitthvað sem hefur verið notað sem kynningarstef í barnatíma fyrir smábörn, ég er bara alveg handviss um það. Eða þá að nákvæmlega svona lag hafi verið notað í einhverri lélegri Disneymynd um siglingu í karabíska hafinu. Frekar leiðinlegt og kveikir ekkert í mér. 4.

Makedónía:

Jæja hér kemur annað lag sem mér þótti blóðleiðinlegt fyrst en vandist svo furðu vel og varð bara uppáhald. Mér finnst þetta bara dúndrandi skemmtilegt. Það minnir mig á gríska sigurlagið frá í fyrra - en mér finnst það betra. Ég held nú ekki endilega að þetta fari að vinna keppnina en það fer vonandi upp úr forkeppninni. Mér finnst það alveg eiga það inni. Svo er söngkonan algjört rúsínukrútt og hlýtur að heilla fólk. Jú það er svosem dálítill blöðrubragur á laginu en það eru góðar og slæmar blöðrur og þessi blaðra er helíumfyllt og litrík og skemmtileg. Ég allavega bæði dansa og syng með gellunni og það er það sem hún vill er það ekki? Elena og blaðran fá 7.

Pólland:

"Trallalíí trallalaa ég er þunn á Spáni árið 1995!" Þetta er fílingurinn sem ég fæ fyrir þessu lagi. Þótt ég væri alveg til í að fara á fyllerí á Spáni þá langar mig ekkert til að verða fjórtán ára aftur. Þetta er grautleiðinlegt lag og ég vona innilega að það fari ekki upp úr forkeppninni. Mér þætti súrt að þurfa að hlusta á þetta lag oftar en einu sinni enn. Það er ótrúlega slappt og þunnt og óintrestíng. Einkunnin er 3 og það er af því að mér finnst pólski rauðhausinn kúl. Hann er svona temmilega kolruglaður virðist vera. Ég finn mig með þannig fólki.

Rússland:

Ég var búin að missa alla trú á rússneskri músík, undanfarið hafa Rússar að mínu mati sent svo kolómöguleg framlög í keppnina. En núna bættu þeir fyrir það og gott betur. Þetta lag er í heilmiklu uppáhaldi hjá mér, það grípur mig alveg í punginn (hefði ég þannig) og neyðir mig til að bara loka augunum og njóta. Reyndar er það hálfósanngjarnt, Dima kallinn er alveg þess virði að maður haldi augunum opnum. Útsetningin gæti illmögulega verið betri en textinn gæti það hæglega og sömuleiðis söngurinn. Svo að ég stilli hamingjunni yfir laginu í hóf og smelli 8,5 á það í stað 9. En þetta er (allavega í augnablikinu) uppáhald númer eitt hjá mér. Finnst það fráb!

Tyrkland:

Pöh-lís! Þetta er svona lag sem ég hélt fyrst að myndi venjast vel en það skeði ekki. Það er alveg jafn ömurlegt núna eftir ca 50 stykki hlustanir og það var fyrst. Og ömurlegra ef eitthvað er. Ég var að því komin á tímabili að stinga rauðglóandi prjónum inn í eyrun á mér bara til að losna við þennan ógeðslega skræk úr þeim. Nú veit ég ekki hvort tónlist er eitthvað notuð í pyntingarskyni í bandarískum as-if-terroristafangelsum en þeir ættu alvarlega að íhuga þetta lag í þeim tilgangi ef þeir vilja vera sjúklega nastí og úrkynjaðir. Fjárinn, ef þeir vilja í raun og veru ná í skottið á Bin Laden þá geta þeir líka notað þetta í það. Þetta myndi fæla hvern sem er út úr hvaða holu sem er bara til að binda enda á ópin. Það fær NÚLL.

Úkraína:

Eins fáránlega og það hljómar þá held ég hellings upp á úkraínska lagið. Ég hefði eiginlega ekki trúað því upp á sjálfa mig, textasmíðin er álíka frumleg og ullarsokkur og þessar endurtekningar ættu með réttu að vera þrælpirrandi. En þetta nær mér engu að síður, einhverra hluta vegna. Ætli það sé ekki bara gleðitakturinn og fjörið en þetta lag fer á partíplaylistann minn. Hún Tina syngur líka svakalega vel þótt það hefði ábyggilega verið hægt að veita henni eitthvað bitastæðara. Og hvað er þetta? Einhver rafmögnuð balalæka í millikaflanum? Gott, gott. Ég held að ég hafi verið eina manneskjan í heiminum sem fannst eistneska lagið í fyrra skemmtilegt og ég tek sénsinn á að vera lúði aftur og bara viðurkenni það að mér finnst þetta kúl. Þetta er happí-lagið mitt í ár. 9.

Finnland:

YEAH! ROCK ON!! Ég er ofurseld þér, mikla Lordi! Mér finnst þetta alveg geggjað lag. Ég vona bara að flutningurinn takist almennilega, ég heyrði upptöku af finnska úrslitakvöldinu og annað hvort var hljóðmaðurinn fullur eða þá að skrímslin geta ekki sungið fyrir fimmkall.

Viðlagið er grípandi og þetta hefur bara allt sem ég hef gaman að: rokk og ról og gítar og öskur og skelfilega karla. Þetta kemur aldrei til með að vinna, sama hve mjög ég vildi óska þess, en það fer örugglega í aðalkeppnina og vel það. 9.

Holland:

Mér hefur alltaf þótt eitthvað svo hallærislegt að vera að búa til eitthvað bullumál. Ef Hollendingar á annað borð þvertaka fyrir að syngja á sínu annars stórkostlega skemmtilega tungumáli á mætti ég þá frekar biðja um lélegan enskan texta en svona bull.

Nú játa ég að þetta er bara einhver meinloka í mér. Ef mér hefði aldrei verið sagt að lagið væri sungið á bullnesku, heldur bara að þetta væri einhver langtíburtneska þá hefði ég ábyggilega ekki verið svona neikvæð. Svo ég er hræsnari. Ég ætla því að reyna að útiloka þessa staðreynd og bara dæma lagið. Ókei... með pólska laginu var ég þunn á Spáni árið 1995 en með þessu er ég full á Spáni árið 1995. Ekki mikill munur kannski, en þeir sem þekkja þynnku vita að það er skömminni skárra að vera fullur en að vera þunnur. Svo að þetta lag fær einkunnina 5. Það er samt hellingur af fólki sem þykja bullmál skemmtileg svo að það er aldrei að vita nema þetta fari upp úr forkeppninni, en ég vona svo sannarlega að það sé misskilningur hjá mér.

Litháen:

Þetta er bara skammarlegt. Só sorrí. En ég á ekki orð yfir það hvað mér þykir þetta einstaklega ömurlegt. Ætla ekki einu sinni að gefa því einkunn, lagið á það bara ekki skilið. Nanananabúbú haldið ykkur heima.

Portúgal:

Ég er dálítið farin að velta því fyrir mér hvort það séu virkilega engir hálfhæfir lagahöfundar til í Portúgal. Þetta er bara vont. Vont, vont, vont, vont eins og Severina hin króatíska myndi kannski segja. Óttalega fátt um það annars að segja, þetta er bara vont og punktur. 2 fyrir portúgölskuna, hún er dásamlegt tungumál.

Svíþjóð:

Carola er náttúrulega bara díva dauðans. Hún er með ke-lekkaða rödd konan. En geta Svíar í alvöru talað ekki farið að gera nýtt lag? Þetta er orðið svo þreytt að maður er lagstur í dvala. Þetta er komið svo innilega yfir strikið að það er farið að eyðileggja fyrir annars prýðilegum lögum. Það er nefnilega tilfellið hérna. Lagið er alls ekki slæmt en maður er bara svo gáttaður á því að það skuli alls ekki vera hægt að bregða oggulítið út af vananum að maður tekur ekki eftir því. Auðvitað heldur dívan því algjörlega uppi, þetta er ekkert stórkostlegt lag en alveg nógu grípandi og hressilegt til að fara langt. Þ.e.a.s. ef maður bælir niður hvötina til að garga "HÆTTIÐ AÐ SEMJA SAMA LAGIÐ AFTUR OG AFTUR!" En það gæti þess vegna unnið, því það er náttúrulega augljóst að það eru ekki allir komnir með í nefgöngin af svíapoppi. Það fær samt bara 7 frá mér, en ekki nema mér verði lofað vindvél á Caroluna.

Eistland:

Ef eitthvað er sænskara en Svíþjóð í ár þá er það Eistland. Þeir eru m.a.s. svo ógeðslega ósvífnir að þeir taka stefið óbreytt úr 'Does your mother know' með ABBA og klína því þarna inn í oftar en einu sinni og oftar en tvisvar og oftar en tíu sinnum. Hvað er málið með það? Tæplega héldu þeir að við tækjum ekki eftir þessu? En jú, Sandra syngur mjög vel og það eru bjöllur þarna, það verða að vera bjöllur í a.m.k. einu júgrólagi árlega. Viðlagið er svona temmilega grípandi og þetta gæti alveg verið sætt á sviði. Það fær 6.

Bosnía & Herzegovina:

Þetta er eina lagið sem gerir það þess virði að horfa og hlusta á síðustu sjö lögin í forkeppninni. Ég er alveg kolfallin fyrir þessu lagi. Það tók sinn tíma en það kom. Mér fannst það mjög svo ömmý fyrst en það venst alveg ótrúlega og smeygir sér einhvern veginn inn í blóðrásina hjá manni og þá er ekki annað hægt en að elska það. Það er svo hugljúft og fallegt og ekta og tilgerðarlaust og hann Hari syngur svo guðdómlega. Það á eftir að vera í uppáhaldi hjá mér í mörg ár. Ef tilfinningin mín fyrir þessu er rétt þá flýgur þetta lag upp úr forkeppninni og beinustu leið í topp 5. Það fær 9,5 í einkunn hjá mér.

Ísland:

Til hamingju Ísland, þetta er crap.

Ég er ein þeirra sem hefur aldrei náð þessu Silvíu-æði, mér finnst þetta einstaklega ófyndinn og tilgangslaus karakter. Ég ákvað samt að vera ekki neikvæð fyrirfram og batt bara vonir við að Þorvaldur Bjarni gæti reddað þessu og ég gæti skammlaust haldið með Íslandi í ár. Hann á svo margt gott í pokahorninu karlinn og getur samið og útsett svo frábær lög.

En hann hefur sennilega verið eitthvað illa fyrir kallaður daginn sem hann hóstaði þessum ömurlegheitum upp. Eða kannski var hann þunnur á Spáni, ég veit það ekki... Mér finnst það súrt að þetta er framlagið okkar þegar við höfðum upp á svo margt annað frambærilegt að bjóða í þessarri glæsilegu forkeppni okkar í ár. En nei, múgæsing is the name of the game og ekkert fékk því breytt að þessi lélegheit fá að fljóta til Aþenu. Má ég biðja um one way ticket? Lagið gerir ekkert fyrir mig, það er óspennandi og leiðinlegt og hefur bara ekkert skánað í þau níuhundruðþúsund skipti sem maður hefur neyðst til að hlusta á það á liðnum vikum og mánuðum. Það eina góða við pakkann er að myndbandið er rosalega pró og flott - en það skiptir engu máli, vegna þess að myndböndin taka ekki beinlínis þátt í keppninni og gera því ekki blautan skít.

Það eru tveir möguleikar fyrir Ísland í ár. Annars vegar sá að Silvía þrói með sér Alf Poier syndrome og hoppi í aðalkeppnina og geri það sæmilegt þar, og hins vegar sá að lagið fái það sem það á skilið og fái náðarsamlegast að sitja eftir kúkfúlt. Einkunnin verður 4 af því þetta er skárra en tyrknesku ósköpin en verra en flestallt annað.